Erlent

Hætta fjárstuðningi við öryggissveitir Palestínu

Samúel Karl Ólason skrifar
Mahmud Abbas, forseti Palestínu bað um að fjárhagsaðstoðinni yrði hætt.
Mahmud Abbas, forseti Palestínu bað um að fjárhagsaðstoðinni yrði hætt. EPA/ALAA BADARNEH
Bandaríkin hætta í dag að veita fé til öryggissveita Palestínu og er það gert að beiðni yfirvalda Palestínu. Ástæðan er að þing Bandaríkjanna samþykkti í fyrra lög sem segja til um að allar ríkisstjórnir sem fái aðstoð frá Bandaríkjunum heyri undir hryðjuverkalög Bandaríkjanna. Yfirvöld Palestínu óttast lögsóknir vegna stuðnings við hryðjuverkasamtök en lögin taka gildi í dag.

Ættingjar bandarískra fórnarlamba hryðjuverkaárása gætu höfðað mál gegn yfirvöldum Palestínu vegna laganna.

Saeb Erekat, háttsettur embættismaður í Palestínu, sagði AFP fréttaveitunni að þeir vildu enga peninga ef það myndi leiða til lögsóknar gegn þeim.Um er að ræða einhverjar 60 milljónir dala á ári sem hefur verið veitt til öryggissveita á Vesturbakkanum. Þær sveitir hafa starfað náið með öryggissveitum Ísrael gegn Hamas og öfgahópum.

Embættismenn í Ísrael hafa lýst yfir áhyggjum af stöðvun fjárveitinganna og hafa áhyggjur af því að þróunin muni koma niður á öryggi á Vesturbakkanum. Í samtali við Washington Post sagði ísraelskur embættismaður að ríkisstjórn Ísrael væri að leita leiða svo fjárveitingin gæti haldið áfram og að ættingjar fórnarlamba hryðjuverkaárása gætu fundið réttlæti.Erekat segir það þó ekki vera rétt. Hann segir Bandaríkjamenn hafa tekið ákvörðun og bendir á á undanförnu ári hafi ríkisstjórn Bandaríkjanna skorið niður fjárhagsaðstoð til Palestínu um hundruð milljónir dala.

Ísraelsmenn og Bandaríkin hafa lengi sakað yfirvöld Palestínu um að kynda undir átök og ofbeldi með því að veita fjölskyldum dæmdra eða grunaðra hryðjuverkamanna í haldi Ísrael eða sem dáið hafa við framkvæmd hryðjuverkaárása fjárhagsaðstoð.

Samkvæmt Times of Israel segja Palestínumenn það ekki vera rétt. Um sé að ræða nokkurs kona velferðaraðstoð.

 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.