Erlent

Birtu myndefni sem sýnir stífluna bresta

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Myndbandið sýnir aurinn flæða yfir námusvæðið.
Myndbandið sýnir aurinn flæða yfir námusvæðið. Skjáskot/Youtube
Brasilísk sjónvarpsstöð birti í dag myndefni sem sýnir stíflu við járngrýtisnámu í Minas Gerais-fylki í suðausturhluta Brasilíu bresta. Yfir tvö hundruð manns er enn saknað eftir að stíflan brast þann 25. janúar síðastliðinn.

Sjónvarpsstöðin Bandeirantes komst yfir myndbandið og birti það m.a. á YouTube-reikningi sínum. Í yfirlitsskoti yfir námusvæðið má sjá þegar stíflan brestur og aurinn flæðir á ógnarhraða yfir námusvæðið. Myndbandið má sjá hér að neðan.

Á meðal þess sem grófst undir eitraðri leðjunni var mötuneyti þar sem starfsmenn námunnar sátu og snæddu hádegismat. Þá fór skrifstofubygging námunnar einnig í kaf.

Sjá einnig: Minnst níu látnir eftir að stíflan brast í Brasilíu



Þegar þetta er ritað eru 110 staðfestir látnir í hamförunum og 238 er enn saknað. Fimm hafa verið handteknir í tengslum við málið og hefur BBC eftir saksóknara í Brasilíu að þrír þeirra séu stjórnendur hjá Vale, stærsta námufyrirtæki landsins og eiganda bæði námunnar og stíflunnar.

Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa lýst því yfir að allt kapp verði lagt á að tryggja öryggi íbúa og bjarga þeim sem eru nærri svæðinu. 

Aðeins fjögur ár eru liðin frá því að stífla í Minas Gerais í Brasilíu brast þar sem nítján manns létu lífið og var hún einnig í eigu Vale. Er slysið því talið vera eitt versta umhverfisslys Brasilíu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×