Enski boltinn

„Stærsta ógn Manchester City er að þeir eru augljóslega besta lið deildarinnar“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Mun Sergio Aguero lyfta Englandsmeistaratitlinum í vor?
Mun Sergio Aguero lyfta Englandsmeistaratitlinum í vor? vísir/getty
Eina liðið sem ógnar því að Manchester City verði Englandsmeistari er Manchester City. Þetta segir knattspyrnusérfræðingurinn Gary Neville.

Neville, sem spilaði við góðan orðstír fyrir Manchester United í fjöldamörg ár, hefur skapað sér nafn sem einn helsti sparksérfræðingur Bretlandseyja. Hann ræddi titilbaráttuna í pistli sínum á Sky Sports.

Manchester City vann Arsenal örugglega 3-1 á heimavelli sínum í gær. Með því minnkaði City forskot Liverpool niður í tvö stig, en þeir rauðu eiga leik til góða í kvöld. Tottenham er tveimur stigum á eftir City en Neville hefur enga trú á að Lundúnabúarnir hrifsi titilinn.

„Það var augljós gæðamunur á liðunum tveimur í gær, en City hefur undan farið átt kafla í leikjum þar sem þeir missa niður hraðann og gefa andstæðingnum trú á að þeir eigi séns. Um leið og þeir stíga aftur á bensíngjöfina og sýna hæfileikana sem þeir búa yfir þá geta þeir keyrt yfir andstæðinginn á ný,“ sagði Neville.

„Stærsta ógn Manchester City er að þeir eru augljóslega besta lið deildarinnar, fyrir utan kannski Liverpool sem kemst nokkuð nálægt þeim.“

„Spurningin er hvort þeir geti náð að halda uppi hraðanum og ákefðinni eða missa einbeitinguna og gera þar með mistök. Það er stærsta ógnin.“

„Þegar við [Manchester United] unnum titla ár eftir ár þá áttum við svona kafla, þar sem við misstum stig og vorum ekki alveg með einbeitingu allan leikinn. Sir Alex Ferguson sagði þá við okkur að okkur leiddist og hann gæti ekki beðið fram í mars og apríl þegar við vöknuðum á ný. Við erum að sjá svipaða hluti hjá City núna.“

„Hættan er að stundum þegar þér leiðist þá lendir þú of langt á eftir og nærð ekki að komast fremst aftur.“

Manchester City hefur orðið Englandsmeistari þrisvar á síðustu árum, en aldrei náð að verja titilinn enn sem komið er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×