Erlent

Mannskæð árás á herstöð í Afganistan

Gunnar Reynir Valþórsson og Samúel Karl Ólason skrifa
Árásin var gerð í héraðinu Maidan Wardak sem er rétt fyrir utan höfuðborgina Kabúl.
Árásin var gerð í héraðinu Maidan Wardak sem er rétt fyrir utan höfuðborgina Kabúl. Vísir/AP
Yfirvöld í Afganistan segja nú að fjörutíu og fimm hermenn hafi fallið í árás Talíbana á herstöð í landinu í gær. Óttast er að tala látinna sé jafnvel enn hærri og rúmlega sjötíu eru sárir. Árásin var gerð í héraðinu Maidan Wardak sem er rétt fyrir utan höfuðborgina Kabúl.

Herstöðin er notuð sem þjálfunarskóli fyrir meðlimi hersveita sem eru hliðhollar stjórnvöldum. Árásin var með þeim hætti að fyrst ók sjálfsmorðssprengjumaður stórum bíl á herstöðina og sprengdi öfluga sprengju og í kjölfarið fylgdu fjórir þungvopnaðir árásarmenn. Þeir voru allir felldir á endanum.



Talibönum hefur vaxið ásmegin á undanförnum árum eða allt frá því að erlendir hermenn yfirgáfu landið árið 2014. Einhverjir bandarískir hermenn eru þó eftir í Afganistan en þeir sjá nánast eingöngu um að þjálfa og aðstoða heimamenn og berjast ekki. Ashraf Ghani, forseti Afganistan, opinberaði í fyrra að frá 2015 hefðu 28 þúsund hermenn og lögregluþjónar fallið í átökum og árásum.

Endi tala látinna í hundrað, eins og einhverjir miðlar ytra segja mögulegt, yrði þetta ein mannskæðasta árásin gegn leyniþjónustum landsins í tvo áratugi.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×