Erlent

Alþjóðleg rannsókn á morðinu á Khashoggi hefst í næstu viku

Kjartan Kjartansson skrifar
Agnes Callamard er franskur sérfræðingur í mannréttindamálum og rannsakar ólöglegar aftökur fyrir mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna.
Agnes Callamard er franskur sérfræðingur í mannréttindamálum og rannsakar ólöglegar aftökur fyrir mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna. Vísir/EPA
Sérstakur sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna í málum sem varða ólöglegar aftökur segist ætla að halda til Tyrklands til að stýra „sjálfstæðri alþjóðlegri rannsókn“ á morðinu á blaðamanninum Jamal Khashoggi í næstu viku.  Sádiarabísk stjórnvöld eru sögð hafa látið myrða hann en því neita Sádar.Khashoggi var myrtur á ræðisskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl 2. október. Yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa orðið margsaga um hvað kom fyrir blaðamanninn en viðurkenndu á endanum að hann hefði látið lífið á ræðisskrifstofunni. Bandaríska leyniþjónustan telur að Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, hafi skipað fyrir um morðið á Khashoggi sem var gagnrýninn á stjórnvöld í heimalandi sínu.Agnes Callamard, fulltrúi SÞ í ólöglegum, óformbundnum og gerræðislegum aftökum, segir Reuters-fréttastofunni að hún ætli að hefja rannsóknina með vikulangri ferð til Tyrklands frá 28. janúar til 3. febrúar. Þar muni hún meta aðstæður morðsins og „hvers eðlis og hversu langt ábyrgð ríkja eða einstaklinga á morðinu“ nái.Niðurstöður rannsóknarinnar ætlar Callamard að kynna þegar mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna kemur saman í júní. Embætti hennar heyrir undir ráðið og hefur hún umboð til að rannsaka aftökur.Stjórnvöld í Ríad hafa dregið hóp manna fyrir dóm vegna morðsins á Khashoggi. Ellefu hafa verið ákærðir þar og krefjast þarlendir saksóknarar dauðadóms yfir fimm þeirra.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.