Erlent

Meintir morðingjar Khashoggi dregnir fyrir dóm í Sádi-Arabíu

Kjartan Kjartansson skrifar
Khashoggi var gagnrýninn á valdahafa í Sádi-Arabíu. Sú gagnrýni virðist hafa verið það sem kostaði hann lífið.
Khashoggi var gagnrýninn á valdahafa í Sádi-Arabíu. Sú gagnrýni virðist hafa verið það sem kostaði hann lífið. Vísir/EPA
Saksóknarar í Sádi-Arabíu sækjast eftir dauðarefsingu yfir að minnsta kosti fimm mönnum vegna morðsins á Jamal Khashoggi. Ellefu sakborningar sem ekki hafa verið nafngreindi komu fyrir dómara þar í landi í dag, að sögn AP-fréttaveitunnar.

Khashoggi, sem var blaðamaður sem hafði verið gagnrýninn á valdhafa í Sádi-Arabíu, var myrtur í ræðisskrifstofu Sáda í Istanbúl í byrjun október. Bandaríska leyniþjónustan telur að Mohammed bin Salman krónprins hafi gefið skipun um morðið.

Stjórnvöld í Ríad gáfu fjölda misvísandi yfirlýsinga um dauða Khashoggi þar til þau viðurkenndu loks að hann hefði verið drepinn á ræðisskrifstofunni. Lík hans hefur enn ekki fundist. Talið er að það hafi verið bútað í sundur á skrifstofunni.

Í yfirlýsingu sádiarabísku saksóknaranna er fullyrt að þeir hafi óskað eftir sönnunargögnum málsins frá tyrkneskum yfirvöldum en að engin svör hafi borist þaðan. Tyrkir hafa sagst hafa deilt gögnum um morðið með Sádum og fleiri þjóðum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.