Erlent

Óhugnanlegar lýsingar á meintum kynferðisbrotum Jacksons í nýrri heimildarmynd

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Michael Jackson sést hér leiða James Safechuck á leiksýningu árið 1988. Með þeim á myndinni er söng- og leikkonan Liza Minelli.
Michael Jackson sést hér leiða James Safechuck á leiksýningu árið 1988. Með þeim á myndinni er söng- og leikkonan Liza Minelli. Getty/Ron Galella

Tveir menn lýsa grófum kynferðisbrotum bandaríska söngvarans Michael Jacksons gegn þeim í nýrri heimildarmynd, Leaving Neverland, sem frumsýnd var á Sundance-kvikmyndahátíðinni í gær. Mennirnir halda því fram að Jackson hafi misnotað þá þegar þeir voru börn og rekja brotin í miklum smáatriðum í myndinni.

Jackson lést árið 2009 en ásakanir um meint kynferðisbrot hans gegn ungum drengjum hafa lengi loðað við hann og feril hans. Hann þvertók þó ætíð fyrir allt slíkt á meðan hann lifði.

Þekktasta dæmið er líklega frá árinu 1993 en þá var hann sakaður um að hafa brotið á Jordy Chandler, þrettán ára pilti, árið 1993 og vakti málið heimsathygli. Jackson og fjölskylda Chandler komust loks að samkomulagi um sáttagreiðslu upp á 23 milljónir Bandaríkjadala.

Í Leaving Neverland er rætt við þá Wade Robson og James Safechuck sem halda því báðir fram að Jackson hafi misnotað þá þegar þeir voru börn.

Robson segist hafa verið fimm ára þegar hann kynntist Jackson á danssýningu og sá síðarnefndi hafi svo byrjað að brjóta á honum tveimur árum síðar. Safechuck var átta ára þegar hann var ráðinn í hlutverk barns í Pepsi-auglýsingu sem Jackson fór með aðalhlutverkið í. Náin vinátta tókst á með þeim í kjöflarið og um mánuði síðar hóf Jackson að beita hann meintu kynferðisofbeldi.

Lét drenginn „giftast“ sér

Báðir rekja þeir meint ofbeldi í miklum smáatriðum en rétt er að vara lesendur við lýsingum á ofbeldinu sem fjallað er um hér á eftir. Lýsingarnar eru byggðar á umfjöllun Variety en myndin er enn ekki komin í almennar sýningar.

Þannig segist Safechuck hafa haft mikinn áhuga á skartgripum sem barn og heldur því fram að Jackson hafi nýtt sér áhugann í annarlegum tilgangi. Þannig hafi hann farið ítrekað með sig í skartgripaverslanir og látið sig máta hringa, armbönd og aðra gripi.

Í einni slíkri verslunarferð hafi Jackson keypt demantsskreytt gullarmband handa Safechuck og gefið honum við einhvers konar giftingarathöfn, þar sem bæði Jackson og Safechuck fóru með brúðkaupsheit.

Wade Robson bar vitni Jackson til varnar er hann var kærður fyrir kynferðisbrot gegn ungum dreng árið 2005. Robson steig svo fyrst fram árið 2013 og sagði Jackson þá hafa misnotað sig. Getty/Connie Aramaki

Þá segir Robson að Jackson hafi keypt handa sér faxtæki þegar hann var sjö ára og þangað hafi sá síðarnefndi sent löng ástarbréf.

„Ég elska þig litli minn. Gerðu mig hamingjusaman og vertu bestur,“ segir í einu bréfinu. Fjölmörg slík bréf eru sýnd í myndinni, auk sjálfsmynda sem Jackson teiknaði handa Robson.

Þvingaði hann til að henda blóðugum nærbuxum

Að sögn Safechuck fór ofbeldið fram í fjölmörgum krókum og kimum Neverland-búgarðsins, hinu sögufræga heimili tónlistarmannsins. Jackson hafi til að mynda misnotað hann inni í læstum kassa í bíósal á heimilinu sem búinn var skyggðu gleri þannig að ekki væri hægt að gægjast inn í hann. Einnig hafi Jackson brotið kynferðislega á honum í rúmi uppi á leynilegu háalofti og í tjöldum sem komið var fyrir í garðinum.

Þá heldur Robson því fram að Jackson hafi brotið á sér í síðasta skiptið árið 1997, þegar sá fyrrnefndi var fjórtán ára. Á þeim tímapunkti hafði Jackson þegar samið við fjölskyldu Jordy Chandler og þá voru einnig nokkur ár síðan þeir Robson og Jackson hittust síðast.

Robson segir Jackson hafa boðið sér upp á hótelherbergi í Los Angeles og reynt þar að hafa samfarir við sig í gegnum endaþarm en hætt við þegar Robson fór að finna til. Næsta dag hafi Jackson boðað drenginn til fundar við sig og beðið hann um að henda blóðugum nærbuxunum sem hann klæddist kvöldið áður. Robson segist hafa orðið við þeirri ósk.

Áður en Leaving Neverland var frumsýnd í gær var áhorfendum tilkynnt um að boðið yrði upp á áfallahjálp vegna grófra lýsinga á kynferðisbrotum í myndinni, að því er fram kemur í frétt Variety. Eru áhorfendur jafnframt sagðir hafa verið afar slegnir við áhorfið.

Hér að neðan má sjá viðtal bandaríska miðilsins TMZ við Wade Robson, annan mannanna sem rætt er við í Leaving Neverland.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.