Erlent

Enn bætist í hóp forsetaframbjóðenda demókrata

Kjartan Kjartansson skrifar
Castro er af mexíkóskum ættum. Trump forseti hefur ítrekað lýst mexíkóskum innflytjendum sem nauðgurum og glæpamönnum.
Castro er af mexíkóskum ættum. Trump forseti hefur ítrekað lýst mexíkóskum innflytjendum sem nauðgurum og glæpamönnum. Vísir/EPA

Julián Castro, fyrrverandi húsnæðismálaráðherra í ríkisstjórn Baracks Obama, tilkynnti í dag að hann gæfi kost á sér í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar á næsta ári. Castro er annar demókratinn sem hefur formlega tilkynnt um framboð.

Washington Post segir að þegar Castro sagðist ætla að kanna forsetaframboð í desember hafi hann sagt ódýrara háskólanám, umfangsmeiri heilsugæsla og málefni eldri borgara væru helstu áherslumál hans.

Castro, sem er 44 ára gamall, var áður borgarstjóri San Antonio í Texas. Reuters-fréttastofan segir að hann hafi lengi verið talin rísandi vonarstjarna í Demókrataflokknum. Tilkynnti hann um framboð sitt á útifundi í hverfi San Antonio þar sem fjöldi íbúa er af mexíkóskum ættum. Hann er sjálfur barnabarn mexíkósks innflytjanda.Auk Castro hefur John Delaney, fyrrverandi þingmaður, formlega lýst yfir framboði. Elizabeth Warren, öldungadeildarþingmaður frá Massachusetts, lýsti því yfir um áramótin að hún væri að kanna jarðveginn fyrir forsetaframboð. Tulsi Gabbard, fulltrúadeildarþingmaður frá Havaí, sagði í gær að hún ætlaði að lýsa formlega yfir framboði í næstu viku.

Búist er við að forval demókrata verði fjölmennt að þessu sinni. Á meðal þeirra sem eru taldir líklegir til að fara fram eru Bernie Sanders, óháður öldungadeildarþingmaður frá Vermont, Kamala Harris, öldungadeildarþingmaður frá Kaliforníu, og Beto O‘Rourke, fulltrúadeildarþingmaður frá Texas sem tapaði kosningu um sæti í öldungadeildinni í haust. Joe Biden, varaforseti Obama, er einnig talinn íhuga framboð.


Tengdar fréttir

Gabbard tilkynnir framboð sitt til forseta

Þingmaðurinn Tulsi Gabbard tilkynnti í gær að hún hygðist bjóða sig fram í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2020.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.