Enski boltinn

Manchester United á toppnum á öllum sviðum eftir að Ole Gunnar tók við

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Pogba hefur farið á kostum síðan að Ole Gunnar Solskjær tók við liði Manchester United. Hann lagði upp sigurmarkið á móti Tottenham.
Paul Pogba hefur farið á kostum síðan að Ole Gunnar Solskjær tók við liði Manchester United. Hann lagði upp sigurmarkið á móti Tottenham. Getty/James Williamson
Það er mjög athyglisvert að skoða töfluna í ensku úrvalsdeildinni þann tíma sem Norðmaðurinn Ole Gunnar Solskjær hefur ráðið ríkjum hjá liði Manchester United en hann tók við liðinu 19. desember síðastliðinn.  

Manchester United er búið að vinna fimm fyrstu deildarleiki sína síðan að Ole Gunnar Solskjær settist í stjórastólinn á Old Trafford.

Hér fyrir neðan má sjá árangur liðanna í ensku úrvalsdeildinni í síðustu fimm umferðum eða síðan að Ole Gunnar tók við starfi Jose Mourinho.





Manchester United liðið er á þessum tíma með flest stig (15), flest mörk skoruð (15), fæst mörk fengin á sig (3) og bestu markaöluna (+12).

Tottenham liðið er reyndar búið að skora jafnmörg mörk og Manchester United í þessum fimm umferðunum en leikmönnum Tottenham tókst hinsvegar ekki að skora hjá United-liðinu á heimavelli sínum í gær.

United-liðið hefur náð í þrjú fleiri stig en Liverpool, hefur náð í fimm fleiri stig en Cheslea og er búið að ná í níu fleiri stig en nágrannarnir og ríkjandi meistarar í Manchester City.

Að auki kom Ole Gunnar Solskjær sínum mönnum áfram í enska bikarnum og varð í gær fyrsti knattspyrnustjórinn í sögu Manchester United til að vinna sex fyrstu leiki sína sem stjóri félagins.

Í síðustu fimm deildarleikjum Manchester United undir stjórn Jose Mourinho þá vann United liðið aðeins einn leik, fékk samtals bara sex stig og fékk á sig heil 8 mörk. Liðið skoraði reyndar níu mörk en það dugði þó oft skammt.

Manchester United er því búið að fá níu fleiri stig, hefur skorað sex fleiri mörk og er með ellefu marka betri markatölu í fyrstu fimm deildarleikjum sínum undir stjórn Ole Gunnar en í þeim fimm síðustu undir stjórn Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×