Erlent

Leyniþjónustan sögð rannsaka þýskan hægriöfgaflokk

Kjartan Kjartansson skrifar
Deildar meiningar eru um ágæti AfD í Þýskalandi. Flokkurinn er stærsti stjórnarandstöðuflokkur landsins.
Deildar meiningar eru um ágæti AfD í Þýskalandi. Flokkurinn er stærsti stjórnarandstöðuflokkur landsins. Vísir/EPA
Þýski hægriöfgaflokkurinn Valkostur fyrir Þýskaland (AfD) er nú sagður til rannsóknar hjá innanríkisleyniþjónustunni þar í landi. Rannsóknin beinist að mögulegri öfgastarfsemi flokksins en þýska stjórnarskráin heimilar að fylgst sé með öfgaflokknum og þeir séu bannaðir.

Dagblaðið Der Tagespiegel heldur því fram að BfV, innanríkisleyniþjónusta Þýskalands, hafi skilgreint AfD sem „mál til rannsóknar“ í skýrslu. Það þýði þó ekki að leyniþjónustan muni hafa stíft eftirlit með flokknum.  Leyniþjónustumenn muni þess í stað fara yfir opinber ummæli flokksmanna og möguleg tengsl við ný samtök hægriöfgamanna.

Talsmaður BfV vildi ekki staðfesta frásögn blaðsins en sagði að stofnunin muni taka á henni á blaðamannafundi í dag, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

AfD hefur haldið uppi harðri andstöðu við innflytjendur og flóttamenn og lagði nýlega til að Þýskaland segði skilið við Evrópusambandið. Nokkuð sambandslönd í Þýskalandi hafa einnig skoðað hvort að markmið og starfsemi AfD stríði gegn stjórnarskrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×