Enski boltinn

Pogba: Höfum fundið einkenni United aftur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Paul Pogba hefur fundið taktinn á ný
Paul Pogba hefur fundið taktinn á ný vísir/getty
Manchester United hefur fundið einkenni sitt aftur undir Ole Gunnar Solskjær að mati franska miðjumannsins Paul Pogba.

Norðmaðurinn Solskjær tók við United til bráðabirgða fyrir jól þegar Jose Mourinho var rekinn. United hefur unnið alla sex leiki sína síðan Solskjær tók við, sem er besti árangur nýs stjóra í sögu félagsins.

Pogba hefur gengið í gegnum endurnýjun lífdaga undir Solskjær.

„Við höldum boltanum meira núna, vitum hvar við eigum að sækja og hvert við eigum að fara. Við erum með meira leikskipulag,“ sagði Pogba við Sky Sports.

„Það skilar sér í að leikurinn verður auðveldari fyrir alla. Jú, ég hef skorað nokkur mörk og átt nokkrar stoðsendingar en allt liðið á heiðurinn.“

Ole Gunnar Solskjær stýrir United út tímabiliðGetty/James Williamson
Fyrstu leikir Solskjær, þó þeir hafi komið með stuttu millibili yfir jólahátíðarnar, voru gegn andstæðingum sem United ætti alla jafna að vinna. Hann fékk hins vegar stórt próf um síðustu helgi þegar liðið mætti Tottenham á Wembley.

Marcus Rashford og David de Gea sáu til þess að United stóðst prófið.

„Þetta var góður sigur fyrir okkur. Það var frábært að sýna að við erum að koma til baka og nálgumst toppinn.“

„Ég myndi ekki segja að við værum heppnir því þú býrð þér til heppni og David vann sína vinnu. Við þökkum honum fyrir það.“

Pogba hefur enn trú á að United geti endað í einu af fjórum efstu sætunum, liðið situr í sjötta sæti, sex stigum frá Chelsea í fjórða sætinu.

„Þetta er Manchester United. Við viljum vera á meðal fjögurra efstu og við eigum að vera þar. Þetta er stærsta félag á Englandi og við viljum vinna titla. Það er það sem Manchester United snýst um,“ sagði Paul Pogba.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×