Enski boltinn

Mourinho: Manchester United ekki tilbúið í nútímafótbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
José Mourinho fylgist með Paul Pogba á æfingu með Manchester United.
José Mourinho fylgist með Paul Pogba á æfingu með Manchester United. Getty/John Peters/

José Mourinho skaut föstum skotum á Manchester United í fyrsta viðtali sínu eftir að hann var rekinn frá félaginu.

José Mourinho kom úr felum í gær þegar hann mætti sem knattspyrnuspekingur í sjónvarpsþátt á beIN Sports. Margir biðu spenntir eftir því sem hann myndi segja um United en liðið hefur tekið stakkaskiptum og unnið alla leiki sína eftir að hann fór.

Mourinho er enn að tala um að annað sætið með Manchester United í fyrra sé eitt mesta afrek hans á sigursælum ferli.

„Fólk segir kannski: Þessi gaur er klikkaður. Hann hefur unnið 25 titla og nú segir hann að annað sætið með United sé eitt hans mesta afrek. Ég held áfram að segja þetta því fólk veit ekki hvað er í gangi á bak við tjöldin,“ sagði José Mourinho.José Mourinho er á því að hjá Manchester United hafi hann ekki fengið þann stuðning sem hann þurfti á að halda. Félagið er að hans mati ekki byggt rétt upp að innan og ekki tilbúið fyrir nútíma fótboltaumhverfi.

„Við lifum ekki lengur á tíma þar sem þjálfarinn einn getur ráðið við þetta. Þjálfarar í dag þurfa rétta fyrirkomulagið og félag sem er sett upp á ákveðinn hátt,“ sagði Mourinho.

„Hvert félag þarf að hafa eiganda eða forseta, framkvæmdastjóra, yfirmann knattspyrnumála og svo knattspyrnustjórann. Þannig uppsetning getur ráðið við öll þau vandamál sem nútíminn býður upp á. Félag verður að vera mjög skipulagt til að ráða við allar þær kringumstæður þegar knattspyrnustjórinn er bara knattspyrnustjóri en ekki maðurinn sem þarf að halda aga eða kenna leikmönnum,“ sagði Mourinho og það er ekki hægt að halda annað en að hann sé þarna að tala um Paul Pogba.

Mourinho tókst meira að segja að blanda Sir Alex Ferguson inn í þetta.

„Sir Alex Ferguson var vanur að segja bless við leikmanninn þegar hann taldi sig vera orðinn mikilvægari en félagið. Það er ekki þannig lengur hjá United,“ sagði Jose Mourinho.

„Knattspyrnustjórinn er þarna til að þjálfa leikmennina en ekki til halda aga með öllum mögulegum aðferðum. Þú þarft uppbyggingu sem passar upp á knattspyrnustjórann og heldur öllu á sínu stað svo að leikmenn mæti ekki haldandi að þeir séu orðnir valdameiri en þeir voru áður. Það þykir ekki frétt lengur þegar allt er í blóma hjá leikmönnunum. Í nútíma fótbolta er það bara frétt þegar það eru vandamál,“ sagði Mourinho.

Jose Mourinho lenti hins vegar ekki aðeins í vandræðum með leikmenn sína hjá Manchester United heldur einnig hjá Real Madrid og Chelsea.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.