Erlent

Fólki sagt hafa fækkað í Kína í fyrsta sinn í 70 ár

Samúel Karl Ólason skrifar
Tæplega 1,4 milljarður manna býr nú í Kína.
Tæplega 1,4 milljarður manna býr nú í Kína. Vísir/Getty
Kínverjum fækkaði í fyrra og er það í fyrsta sinn sem það gerist í 70 ár. Tæplega 1,4 milljarður manna býr nú í Kína. Fæðingum árið 2018 fækkaði um 2,5 milljónir frá 2017. Sérfræðingar vara við því að breytingar á aldri Kínverja muni auka þrýsting á efnahag ríkisins á komandi árum.

Tölur þessar koma frá Yi Fuxian, sem starfar hjá Háskólanum í Wisconsin-Madison í Bandaríkjunum. Hann starfar með hagfræðingi við Háskólann í Peking og byggja niðurstöðurnar á opinberum tölum í Kína. Búist er við að opinberar tölur verði birtar seinna í mánuðinum.

Í samtali við AFP fréttaveituna segir Yi að sögulegur vendipunktur hafi orðið í Kína í fyrra og mögulega verði ómögulegt að snúa þessari þróun við. Þá vegna fækkunar kvenna á barneignaraldri og þess hve kostnaður við menntun, heilbrigðisþjónustu og húsnæði hafi hækkað í Kína.



Samkvæmt Yi fækkaði Kínverjum um 1,27 milljón manna í fyrra. Þá er búist við því að konum á barneignaraldri muni fækka um rúmlega 39 prósent á næsta áratug.

Í áratugi leyfðu yfirvöld Kína íbúum að eignast einungis eitt barn og var það gert til að sporna gegn fólksfjölgun. Reglurnar voru settar á árið 1979 og þurfti fólk sem braut þær að greiða sektir. Reglulega bárust þó fregnir af fólki sem var neytt í fóstureyðingar eða gert ófrjótt.

Reglunum var þó breytt árið 2016 og geta Kínverjar nú eignast tvö börn. Þá hafa verið uppi vangaveltur um að hækka hámarkið. Miðað við niðurstöður Yi hefur það þó ekki borið árangur og hefur fæðingum ekki fjölgað í takt við væntingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×