Erlent

Spekileki skekur Tyrkland

Samúel Karl Ólason skrifar
Þetta kemur fram í umfjöllun New York Times, sem rekur spekilekann að miklu leyti til Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands.
Þetta kemur fram í umfjöllun New York Times, sem rekur spekilekann að miklu leyti til Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands. AP/Burhan Ozbilici
Fræðimenn, frumkvöðlar, viðskiptamenn, námsmenn og þúsundir auðugra Tyrkja hafa flúið land á undanförnum árum. Allt þetta fólk tekur með sér eigur sínar og þekkingu og fólksflutningarnir gætu valdið Tyrklandi gífurlegum skaða yfir næstu áratugi.

Þetta kemur fram í umfjöllun New York Times, sem rekur spekilekann að miklu leyti til Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, stefnumála hans, ríkisstjórnar og spillingar. Í kjölfar misheppnaðs valdaráns árið 2016 hafi hann látið handtaka og fangelsa þúsundir manna sem hann telji andstæðinga sína og efnahagur ríkisins og gjaldmiðill hefur beðið hnekki.Minnst tólf þúsund auðugir Tyrkir eru sagðir hafa flutt eigur sínar út úr landinu á árunum 2016 og 2017, samkvæmt skýrslu frá AfrAsia Bank. Í skýrslunni segir að flestir hafi flutt til Evrópu eða Sameinuðu arabísku furstadæmanna.

Þar segir einnig að flótti auðugra einstaklinga boði ekki gott fyrir Tyrkland. Sé litið til sögunnar sé það fyrirboði versnandi ástands.

Rúmlega 250 þúsund manns fluttu frá Tyrklandi árið 2017, sem er um 42 prósenta aukning á milli ára.

Þúsundir hafa sótt um vegabréfsáritanir til Bretlands, Grikklands, Portúgal og Spánar. Þá hefur hælisumsóknum innan Evrópusambandsins fjölgað verulega, samkvæmt sérfræðingum sem NYT ræddi við.

Einn þeirra segist telja að um tíu þúsund Tyrkir hafi sótt um sérstaka viðskiptatengda vegabréfsáritun til Bretlands á undanförnum árum. Það sé tvöföldun frá tímabilinu 2004 til 2015.

„Spekilekinn er raunverulegur,“ sagði Ibrahim Sirkeci frá Háskólanum í London.

Erdogan sjálfur hefur brugðist reiður við fregnum af flutningi eigna frá Tyrklandi. Fyrr á síðasta ári sagði hann þessa hegðun ófyrirgefanlega og óskiljanlega.

 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.