Erlent

Katalónskur fangi biðlar til Íslendinga

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Amnesty International og Mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna hafa gagnrýnt fangelsun Jordi Cuixart og annarra katalónskra aðgerðasinna.
Amnesty International og Mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna hafa gagnrýnt fangelsun Jordi Cuixart og annarra katalónskra aðgerðasinna. mynd/Òmnium Cultural
Ríkisstjórn Íslands ætti ekki að leyfa Spánverjum að brjóta á mannréttindum katalónskra sjálfstæðissinna og annarra borgara. Þetta segir hinn 43 ára gamli Jordi Cuixart, forseti menningarsamtakanna Òmnium Cultural og einn níu Katalóna sem vistaðir eru í fangelsi vegna atburðanna haustið 2017 er stjórnvöld í Katalóníu boðuðu til ólöglegrar atkvæðagreiðslu um sjálfstæði og gáfu svo út sjálfstæðisyfirlýsingu skömmu síðar. Nokkur til viðbótar eru svo ákærð en á flótta utan Spánar. Til dæmis Carles Puigdemont, fyrrverandi héraðsforseti.Cuixart hefur verið ákærður fyrir uppreisnaráróður. Áður en ákæra var gefin út í máli hans sagði dómari að Cuixart hefði klifrað upp á lögreglubíl þann 20. september 2017 í mótmælum í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar. Dómarinn sagði að Cuixart og annar ákærður, Jordi Sanchez, hefðu sagt mótmælendum að fara ekki heim, löng nótt væri í vændum. Á myndbandi sem var birt sést hins vegar hvar Cuixart og Sanchez biðja mótmælendur um að halda heim er þeir stóðu á bílnum.Hann er vistaður í Lledoners-fangelsinu. Amnesty International og skrifstofa mannréttindastjóra Sameinuðu þjóðanna eru á meðal þeirra sem hafa gagnrýnt fangelsun hans og annarra katalónskra aðgerða­sinna og stjórnmálamanna. Hér á Íslandi hefur svo forseti Alþingis lýst yfir áhyggjum af fangelsun Carme Forcadell, fyrrverandi forseta katalónska héraðsþingsins.

Hneyksli fyrir Evrópu

Ríkissaksóknari Spánar sakar Cuixart um að hafa hvatt fólk til þátttöku í atkvæðagreiðslunni sem fór fram þann 1. október 2017, að því er Cuixart sjálfur segir frá.„Við erum að tala um grundvallarréttindi í lýðræðisríki. Tjáningarfrelsið, frelsið til að mótmæla, til að greiða atkvæði. Þannig að saksóknarinn sakar mig fyrst um uppreisn og fer fram á sautján ára fangelsisdóm. Hin raunverulega ástæða þess að ég er í fangelsi er sú að ég er forseti Òmnium Cultural, samtaka sem telja rúmlega 130.000 meðlimi og einbeita sér að því að verja katalónska tungu, menningu og samheldni. Þau hafa verið virk í þessari hreyfingu sem snýst um sjálfsákvörðunarrétt Katalóna,“ segir Cuixart og bætir við:„Ég er pólitískur fangi á Spáni á 21. öldinni. Það er hneyksli fyrir alla Evrópu.“

Jordi kallar eftir stuðningi alþjóðasamfélagsins. Hann segir þögn þess beinlínis ærandi. mynd/Òmnium Cultural

Franco lifi enn

Cuixart fékk birta grein í Fréttablaðinu í lok október. Þar líkti hann spænskum stjórnvöldum við ógnarstjórn einræðisherrans Franciscos Franco á Spáni á síðustu öld. En í hverju felast þessi líkindi?„Þegar Franco dó ákvað Spánn að gera ekki greinarmun á milli gerenda og þolenda. Francoisminn, ólíkt nasismanum í Þýskalandi eða stjórn Mussolini á Ítalíu, hefur aldrei farið fyrir dóm. Þetta þýðir að lögreglumenn sem pyntuðu fanga héldu starfi sínu, ráðherrar sem kvittuðu upp á dauðadóma héldu áfram í stjórnmálum og dómarar Francos héldu áfram að fella dóma.“Þrátt fyrir að Franco sé látinn lifir stjórn hans sum sé enn, heldur Cuixart fram. Þannig hefur Francoisminn ítök í stjórnkerfinu, sérstaklega dómskerfinu. „Eins og hefur verið greint frá í skýrslum GRECO tryggja stjórnvöld ekki sjálfstæði dómstóla. Stofnun Francos er lögleg á Spáni í dag en grínistar mega ekki draga dár að fánanum eða samheldni Spánar.“

Ný stjórn

Frá því Cuixart var handtekinn hefur stjórn Lýðflokksins undir forsæti Marianos Rajoy vikið fyrir Sósí­al­istaflokknum og Pedro Sán­chez. Cuixart segir helsta muninn þann að sósíalistarnir séu almennilegri en grundvallaratriðin séu þó þau sömu.„Ríkisstjórn sósíalista reynir að nota vinsamlegri tón í viðræðum en leggur ekki fram neinar alvarlegar tillögur fyrir Katalóníu. Það er ekkert boð um raunverulegar viðræður og þaðan af síður um umbætur á stjórnarskránni. Ekkert skref í átt að ríkjasambandi, enginn raunverulegur samræðuvilji og engin viðleitni til þess að binda enda á þetta hneyksli sem felst í því að læsa okkur inni, áður en mál okkar fara fyrir dóm, í rúmt ár.“

Óréttlætanlegt

Aðspurður um lífið í fangelsinu segir Cuixart að komið sé fram við sig eins og alla hina fangana. Lífið í fangelsinu sé ekki sérstaklega erfitt og að hann njóti þess að stunda hugleiðslu, lesa og skrifa. „Um þessar mundir sæki ég keramikvinnustofu og þegar við vorum í Madríd fékk ég að mála. Svo held ég líka áfram að sinna skyldum mínum sem forseti Òmnium Cultural í fangelsinu þannig að ég hef nóg að gera. Það sem skiptir máli er hvernig maður tekst á við þessa takmörkun á líkamlegu frelsi. Frelsi er hugarástand og mér líður eins og ég sé frjáls,“ segir Cuixart.Að sögn Katalónans þjást aðstandendur hans þó meira. „Ég á son sem er eins árs og sjö mánaða gamall. Ég var sendur í fangelsi þegar hann var hálfs árs. Síðustu 410 daga hef ég fengið að vera með honum í samtals þrjá og hálfan dag. Það er óréttlætanlegt hneyksli. Ég fæ að hámarki að hringja sex símtöl í átta mínútur í hverri viku og fæ tvær heimsóknir á mánuði.“

Stuðningur

Stuðningurinn sem Cuixart fær frá katalónskum aðskilnaðarsinnum hjálpar. „Þessi mikli stuðningur sem við, pólitísku fangarnir, höfum fengið er svakalegur. Þetta er kærleikur sem við munum aldrei geta endurgoldið. Ég fæ hundruð dýrmætra bréfa á hverjum einasta degi. Og á hverjum sunnudegi safnast þúsundir saman við fangelsið og syngja. Aðrir hittast einnig um gjörvalla Katalóníu,“ segir Cuixart.Að þessu leyti eru fangelsuðu aðskilnaðarsinnarnir heppnir, segir Cuixart. Samheldnin sýnir fram á að sjálfstæðishreyfingin krefst póli­tískrar lausnar á deilunni. „Með því að fangelsa okkur leysa stjórnvöld á Spáni ekki þau félagslegu, pólitísku og efnahagslegu vandamál sem hrjá katalónskt samfélag. Þau versna bara,“ segir hann og bætir því við að til dæmis eigi 21 prósent Katalóna á hættu félagslega einangrun, hlutfallið sé það hæsta á Spáni.

Komandi réttarhöld

Enginn nímenninganna hefur farið fyrir dóm enn vegna málanna. „Ég býst við því að það gerist í lok janúar,“ segir Cuixart. Hann segir þó að nokkur hreyfing hafi verið á málinu.„Ég vil sérstaklega minnast á yfirlýsingu Amnesty International nýverið en samtökin kröfðust þess að við yrðum leyst úr haldi og ákærurnar dregnar til baka. Þá hafa samtök á borð við World Organization Against Torture og hin virtu óháðu félagasamtök Front Lane Defenders kallað eftir lausn okkar. Fyrir nokkrum vikum sögðu 120 spænskir prófessorar í stjórnlögum að það væri enga uppreisn né uppreisnaráróður að finna í málum okkar, eins og dómstólar í Belgíu og Þýskalandi hafa nú þegar komist að.“Cuixart býst þó ekki við því að ríkisstjórnin dragi ákæruna til baka. „Ríkissaksóknari hefur nú þegar birt ákæru sína og fer nú fram á átta ára fangelsisdóm fyrir einhvern uppskáldaðan uppreisnaráróður. Við samþykkjum ekkert nema sýknu.“

(Ó)sanngjörn réttarhöld

En Katalóninn spyr sig hvort hann geti átt von á sanngjörnum réttarhöldum. „Sérstaklega ef við lítum til þess að málsmeðferðin hefur verið afar óvenjuleg og dómstóllinn er afar pólitískur. Fyrir skemmstu var skilaboðum leiðtoga Lýðflokksins í öldungadeildinni lekið þar sem hann grobbaði sig af því að með kjöri nýs forseta hæstaréttar og dómskerfisins alls gæti flokkurinn stýrt málum okkar. En á Spáni segir enginn af sér eftir svona leka.“Fréttablaðið fjallaði um lekann á sínum tíma. Þótt ekki hafi verið minnst sérstaklega á Katalónana í lekanum sagði Lýðflokksmaðurinn að flokkurinn gæti stýrt sakamáladeild hæstaréttar úr bakherbergjum. Mál Katalónanna falla einmitt undir þessa sakamáladeild. Svo fór að lokum að Manuel Marchena, sem átti að taka við embætti forseta hæstaréttar og forseta spænska dómskerfisins, hafnaði sætinu.

Ærandi þögn

Alþjóðasamfélagið kvaddi sér hljóðs þegar myndbönd birtust af spænskum lögreglumönnum berja á katalónskum kjósendum í október 2017. Cuixart segir að það hafi leitt til þess að dregið hafi úr ofbeldi af hálfu lögreglunnar á Spáni. Hins vegar hafi alþjóðasamfélagið ekki látið í sér heyra vegna meðferðar hinna ákærðu sjálfstæðissinna.„Því miður hugsa ríki heimsins í dag fyrst og fremst um að vernda sjálf sig en ekki að hlutast til um eitthvað sem þau lýsa sem innanríkismáli. En þögn ríkisstjórna heimsins myndar skýra andstæðu við háværa rödd fjölmargra aðskilnaðarsinna, Nóbelsverðlaunahafa og mannréttindabaráttusamtaka sem fordæma þessi mannréttindabrot og vara við alræðishneigð spænsku ríkisstjórnarinnar,“ segir Cuixart og heldur áfram:„Við verðum að hafa í huga að það eru ekki bara katalónskir sjálfstæðissinnar sem sæta ofsóknum. Það gera blaðamenn einnig, listamenn og aðrir borgarar sem hafa nýtt grundvallarréttindi sín, til dæmis tjáningar- eða mótmælafrelsi. Á Spáni er ekki leyfilegt að sýna andóf. Þetta er einkar alvarleg staða.“

Biðlar til Íslendinga

Stjórnvöld á Íslandi hafa í gegnum tíðina staðið með mannréttindum og hafa áður stutt sjálfstæðishreyfingar. Til dæmis vakti það heims­athygli þegar Ísland varð fyrsta ríkið til að viðurkenna sjálfstæði Eistlands, Lettlands og Litháens eftir fall Sovétríkjanna. Cuixart biðlar því til Íslendinga.„Í gegnum tíðina hefur Íslendingum alltaf verið umhugað um þann veruleika sem katalónsk menning og tunga býr við og hafa vakið máls á málum okkar á sviði UNESCO. Fyrir það erum við afar þakklát. Til viðbótar eigum við Katalónar góðan íslenskan vin, Björk, sem ég dái mikið. Hún tileinkaði Katalónum lag sitt Declare Independence daginn eftir atkvæðagreiðsluna,“ segir Cuixart.„Mín skilaboð til íslensku ríkisstjórnarinnar eru þau að ef þau leyfa öðru Evrópuríki, Spáni í þessu tilfelli, að brjóta með alvarlegum hætti á mannréttindum eru þau að stefna þessum sömu réttindum í hættu um alla Evrópu. Hvernig getum við krafist þess að Pólland og Ungverjaland, eða Tyrkland, virði þau réttindi ef Spánn gerir það ekki?“ heldur Cuixart áfram.Það að verja mannréttindi í Barcelona eða Madríd þýðir að maður ver mannréttindi í París, Berlín eða Reykjavík á sama tíma, segir Cuixart.„Sjálfsákvörðunarréttur Katalóna er löngu hættur að vera innanríkismál og snertir nú Evrópu alla. Rétt eins og við þurfum að takast á við upprisu lýðskrumara, útlendingaandúðar og alræðishyggju þurfum við að berjast gegn takmörkunum við frelsi og grundvallarréttindi frá byrjun. Áður en það verður of seint. Ég vil líka biðja ríkisstjórn Íslands um að fylgjast náið með dómum yfir okkur og senda eftirlitsmenn til þess að fylgjast með.“

Kosningar besta lausnin

Til þess að leysa krísuna sem hefur haldið Katalóníu í heljargreipum undanfarið rúmt ár segir Cuixart þörf á samúð, samræðum og að alþjóðasamfélagið taki sér stærra hlutverk. Hann segir að brotið hafi verið á réttindum Katalóna og að þeir séu borgarar Evrópusambandsins. Það hafi bein áhrif á sambandið sjálft.„Svo verður að líta til þess að spænskir stjórnmálaflokkar hafa hagnast á því að kynda undir átökunum við Katalóna. Héraðskosningarnar í Andalúsíu eru skýrt dæmi. Þar vann öfgaíhaldsflokkurinn VOX mikinn sigur vegna árása sinna á Katalóníu.“Að mati Cuixart þurfa stjórnvöld á Spáni og í Katalóníu að setjast að viðræðuborðinu og ræða um hvernig sé hægt að svara ákalli þeirra 80 prósenta Katalóna sem krefjast þess að fá að greiða atkvæði um sjálfstæði.„Það þarf ekki að leita langt til að finna dæmi um slíkt. Eins og gerðist með Bretland og Skotland eða Kanada og Quebec. Það að leyfa fólki að kjósa, í Evrópu á 21. öldinni, á aldrei að vera vandamál. Í lýðræðisríki eru kosningar alltaf besta leiðin til að leysa deilur. Katalónar eru friðsamir og búa yfir mikilli þrautseigju,“ segir Cuixart að lokum.


Tengdar fréttir

Kveðst pólitískur fangi Spánverja

"Undanfarið ár hef ég verið pólitískur fangi, gísl spænsku ríkisstjórnarinnar,“ segir Jordi Cuixart, forseti Omnium Cultural og baráttumaður fyrir sjálfstæði Katalóníu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.