Erlent

Svefnleysi og þyngdartap í hungurverkfalli fjögurra Katalóna

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Karlfangarnir sjö, af níu föngum alls, eru vistaðir í Lledoners-fangelsinu í Katalóníu. Frá vinstri má sjá þá Jordi Sanchez, Oriol Junqueras, Jordi Turull, Joaquim Forn, Jordi Cuixart, Josep Rull og Raul Romeva.
Karlfangarnir sjö, af níu föngum alls, eru vistaðir í Lledoners-fangelsinu í Katalóníu. Frá vinstri má sjá þá Jordi Sanchez, Oriol Junqueras, Jordi Turull, Joaquim Forn, Jordi Cuixart, Josep Rull og Raul Romeva. Nordicphotos/AFP
Katalónsku aðskilnaðarsinnarnir Jordi Sanchez og Jordi Turull eru nú á tólfta degi hungurverkfalls og þeir Joaquim Forn og Josep Rull á sínum níunda. Saman eru þeir vistaðir í Lledoners-fangelsinu vegna meints uppreisnaráróðurs og uppreisnar gegn spænska ríkinu í tengslum við sjálfstæðisatkvæðagreiðslu og -yfirlýsingu síðasta árs. Þeir efndu til hungurverkfallsins til að mótmæla því hversu lengi spænsk stjórnvöld hafa frestað því að rétta yfir þeim og til að mótmæla ákærunum sjálfum. Auk þeirra eru fimm önnur í haldi.Pilar Calvo, upplýsingafulltrúi fjórmenninganna, hefur greint frá því að þeir ætli að halda hungurverkfallinu til streitu og séu hvergi nærri því að gefast upp. Samanlagt hafi þeir lést um 20 kíló og stríði nú við svefnleysi. Þá blés Calvo á frásagnir af því að fjórmenningarnir væru að svindla, sagði þá bara drekka vatn með steinefnum en hafa vissulega þurft að taka lyf.Quim Torra, forseti héraðsins, lauk í gær tveggja sólarhringa föstu sem hann efndi til, til þess að sýna föngunum samhug. Fleiri katalónskir aðskilnaðarsinnar hafa tekið svipaða ákvörun. Fram að jólum munu til dæmis tíu fasta í einu í Dipòsit d’Aigües del Rei Martí í miðborg Barcelona. Hver hópur mun fasta í allt að sjö daga.Greint var frá því í gær að ríkissaksóknari Spánar í Katalóníu rannsakaði nú hvort katalónska lögreglan hefði sýnt vanrækslu með því að koma ekki í veg fyrir mótmæli gegn spænskum stjórnvöldum um helgina.Stjórnvöld í Madríd hafa varað Katalóna við því að spænska lögreglan gæti verið send á svæðið vegna málsins.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.