Erlent

„Engin spurning“ að Trump sé rasisti að mati þingmannsins unga

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Alexandria Ocasio-Cortez hefur komið inn sem stormsveipur í stjórnmálin í Bandaríkjunum.
Alexandria Ocasio-Cortez hefur komið inn sem stormsveipur í stjórnmálin í Bandaríkjunum. Getty/Cheriss May
Alexandria Ocasio-Cortez, nýr þingmaður Demókrata og ein helsta vonarstjarna flokksins segir að það sé „engin spurning“ að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sé rasisti. Þetta kom fram í viðtali Ocasio-Cortez í 60 mínútum sem birt var í gær. 

Hin 29 ára gamla Ocasio-Cortez er yngsta konan sem kjörin hefur verið á Bandaríkjaþing. Gefur hún sig út fyrir að vera róttækur vinstri sinni og hefur hún heldur betur hrist upp í þinginu frá því að hún tók sæti í síðustu viku.

Í viðtalinu var hún spurð að því hvort hún teldi Trump forseta vera kynþáttahatara. „Já, engin spurning,“ svaraði Ocasio-Cortez áður en hún hélt áfram.

„Þegar þú skoðar orðin sem hann notar, sem sögulega séð eru einskonar kallmerki hvítra þjóðernissinna, þegar þú skoðar hvernig hann brást við atvikinu í Charlottesville, þar sem nýnasistar myrtu konu og berð það svo saman við hvernig hann býr til vandamál eins og við landamærin þar sem innflytjendur óska eftir hæli á löglegan hátt. Munurinn er eins og munurinn á degi og nóttu,“ sagði Ocasio Cortez

Repúblikanar og aðrir sem eru mótfallnir því sem Ocasio-Cortez segist standa fyrir hafa reynt að koma höggi á hana frá því að ljóst var að hún hefði náð kjöri á þing. Hefur hún verið kölluð róttæklingur og öfgamaður en hún segist stolt af því að vera kallaður róttæklingur.

„Þeir einu sem hafa breytt heiminum hafa verið róttæklingar,“ sagði Cortez sem meðal annars hefur lagt til að settur verði 70 prósent skattur á hæstu tekjur einstaklinga í Bandaríkjunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×