Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Breiðablik - ÍA 0-1 | Skagamenn skoruðu markið

Árni Jóhannsson skrifar
vísir/daníel
Leikur Breiðabliks og ÍA, sem fram fór á ný vígðu gervigrasi fyrr í kvöld, var mjög jafn og hörku einvígi tveggja skipulagðra liða. Fyrir fram var alveg búist við því að um mikla skák yrði að ræða þar sem markalaust jafntefli væri mjög líkleg úrslit.

Það varð svo og í 93 mínútur tæpar var staðan einmitt 0-0 eða alveg þangað til Einar Logi Einarsson, miðvörður ÍA, kom boltanum í markið eftir skot Stefáns Teits Þórðarsonar sem fékk boltann í lappirnar eftir hornspyrnu. 

Breiðablik hafði svo ekki tímann til að bregðast við og stigin þrjú á leiðinni í gegnum Hvalfjarðargöngin og upp á Skaga.

Afhverju vann ÍA?

Erlent orðatiltæki segir að stundum sé betra að vera heppinn frekar en að vera góður. Skagamenn voru heppnir að ná sigurmarkinu en það verður þó að taka það fram að þeir eru mjög góðir í þeirri aðferð sem þeir beita við að vinna fótbolta leiki. Þeir gáfu mjög fá færi á sér í dag, voru þéttir fyrir, beittu föstum leikatriðum til að skapa sín færi og nýttu eitt í blálokin til að vinna þetta einvígi toppliðanna.

Hverjir voru bestir á vellinum?

Eins og segir í textalýsingu leiksins þá var hann í mjög miklu jafnvægi og voru ekki margir leikmenn sem stóðu upp úr. Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Blika, varði tvisvar virkilega vel í stöðunni 0-0 og gerir tilkall til að vera valinn maður leiksins. Hjá Skagamönnum verðum við að tala um þá sem léku aðalhlutverkið í að skapa sigurinn. Stefán Teitur Þórðarson var mjög góður á miðjunni í dag og markaskorarinn Einar Logi Einarsson var partur af mjög þéttri varnarlínu ÍA sem hélt hreinu í dag og hefur ekki fengið á sig nema fjögur mörk í fimm leikjum.

Hvað gekk illa?

Blikar eru einnig með gott knattspyrnulið og í kvöld hefði það vel getað verið að þeir myndu stela sigrinum. Því miður varð það ekki en Blikar náðu ekki að skapa sér nein færi í kvöld sem hægt er að tala um sem dauðafæri. Þeir náðu að koma boltanum einu sinni í markið en það var réttilega dæmt af þar sem búið var að brjóta á markverði ÍA.

Hvað næst?

ÍA trónir á toppi deildarinnar þegar fimm umferðum er lokið. Þeir verða einir á toppnum en ekkert af liðunum sem spilar á morgu á möguleika á því að ná þeim að stigum. Þeir hafa nú þegar unnið Val, FH og Breiðablik sem öll eru lið sem spáð var góðu gengi í sumar. Næstir á dagskrá Skagamanna eru Stjörnumenn á Akranesi. Stjörnumenn eru fimm stigum á eftir ÍA þegar þetta er skrifað og enn eitt prófið fyrir drengina hans Jóa Kalla framundan.

Blikar eru í öðru sæti og hafa einungis tapað einum leik hingað til. Þessi úrslit eru engin martröð en þeir þurfa að vera fljótir að hysja upp um sig því í næstu umferð verða það Valsmenn sem etja kappi við Kópavogspilta. Það er risastór leikur í því samhengi að báðum liðum var spáð við topp deildarinnar og er deildin að þróast þannig að hver punktur mun líklega skipta máli þegar upp er staðið í haust.

vísir/daníel
Einar Logi Einarsson: Þetta verður ekki sætara

„Þetta var kannski bölvuð heppni á staðsetningunni hjá mér en boltinn dettur fyrir lappirnar á Stebba [Stefán Teitur Þórðarson] sem neglir honum í átt að markinu og ég bara set fótinn í hann og boltinn endar út í horni. Þetta er bara geggjað“, sagði hetja Skagamanna, Einar Logi Einarsson, þegar hann var beðinn um að lýsa markinu sem tryggði þeim gulklæddu sigurinn á Breiðablik í fimmtu umferð Pepsi Max deildarinnar í kvöld. Markið kom á 94. mínútu leiksins eða alveg í blálokin.

Leikurinn var lengst af í járnum en allt benti til þess að leikar myndu enda 0-0. Einar var því mjög sáttur við útkomuna.



„Já við tökum þetta heldur betur. Þetta verður ekki sætara“.



Hann var að lokum spurður hversu hátt Skagamenn væru komnir og hvað væri að skila þessari geggjuðu byrjun þeirra.



„Það er náttúrlega mikil vinna að baki, liðsheildin er geggjuð og við erum að berjast til seinasta blóðdropa. Við erum þéttir og vitum að við getum varist í 90 mínútur eins og við sýndum í dag. Þeir fengu ekki mörg færi í dag og svo fáum við svona heppnismark en það þarf ekki mikið meira en það“.



„Svo er það bara að vinna næst leik. Það er bara einn leikur í einu. Það er ekki flóknara en það, við getum farið inn í alla leiki til að vinna þá og við erum búnir að sýna það“.

vísir/daníel
Jóhannes Karl: Það er nóg að skora eitt þegar maður nær að halda hreinu

„Eins og sést þá erum við hrikalega sáttir með þennan sigur fyrir framan fullt af okkar áhorfendum“, voru fyrstu viðbrögð frá sigurreifum þjálfara Skagamanna eftir sigur ÍA á Breiðablik fyrr í kvöld.

„Við vissum að þetta yrði erfiður leikur, við gáfum fá færi á okkur og bara á ótrúlegri seiglu og öflugu hugarfari hjá strákunum þá náum við þessu sigurmarki í lokin sem er náttúrlega alveg geggjað“.

Jóhannes Karl var spurður að því næst hvort allt hefði gengið upp samkvæmt skipulagi hans fyrir leik í dag. 

„Já við vorum allavega virkilega sáttir við varnarvinnuna og vinnuna á liðinu fyrst og fremst. Þessir þættir voru alveg til fyrirmyndar eins og hún hefur reyndar verið núna frá því í byrjun móts þannig að við vorum virkilega sáttir við það. Við fengum líka færi til að skora fyrr í leiknum og við sköpuðum okkur nokkur ágætis færi til að skora fleiri mörk en það skiptir ekki máli það er nóg að skora eitt þegar maður nær að halda hreinu og annan leikinn í röð höldum við hreinu“.

Að lokum var Jóhannes spurður út í byrjunina og þá kannski helst hvort að Skagamenn væru komnir hátt upp eftir hana.

„Byrjunin er náttúrlega alveg geggjuð. En það er náttúrlega bara næsti leikur sem skiptir máli. Við unnum Blikana í dag, sem við ætluðum okkur að gera, það heppnaðist virkilega vel. Svo er það Stjarnan í næsta leik og það er bara komin fókus á það verkefni“.

vísir/daníel
Ágúst Gylfason: Því miður töpuðum við á góðum degi

Skrefin voru þung sem þjálfari Breiðabliks tók í áttina að blaðamanni til að svara spurningum um það sem fór úrskeiðis hjá hans mönnum fyrr í kvöld. Það er skiljanlegt að hljóðið sé þungt í mönnum þegar sigurmark er skorað á loka andartökum leiksins.

„Ég er ekki alveg að átta mig á þessu, við lágum á þeim mest allan seinni hálfleikinn en þeir gera vel og eru góðir í föstum leikatriðum. Þeir eru góðir að sprengja upp völlinn í skyndisóknir og áttu kannski skilið að fá stigin þrjú í dag miðað við hvernig þeir spiluðu. Þeir nýttu fast leikatriði sem þeir eru sterkir í og fengu mikið af innköstum og hornspyrnum sem við hefðu getað sleppt að gefa þeim“.

Ágúst var þá spurður út í einbeitingarleysi hjá hans mönnum sem jafnvel stafar af þreytu en dagskráin er búin að vera þétt í þessari viku í Pepsi Max deildinni.

„Ég held að það stafi ekki af einhverri þreytu. Ég meina ef við vorum að horfa á sama leikinn þá spiluðu þeir beinskeyttann fótbolta á meðan við héldum boltanum og spiluðum honum á milli manna en þetta er árangursríkt sem þeir eru að gera og eiga heiður skilið fyrir það. Þeir eru á toppnum, það er nokkuð ljóst“.

„Við vorum ekki að sætta okkur við stigið, við vorum að opna okkur aðeins og settum mikinn trukk í þetta síðasta korterið. Við náðum marki, sem var svo dæmt af, þannig að þetta lá í loftinu en þeir voru alltaf hættulegir í föstum leikatriðum og refsuðu okkur herfilega í lokin“.

Að lokum var þjálfari Breiðabliks spurður að því hvað hann þyrfti að segja við sína menn til að koma þeim aftur upp á tærnar eftir svona skell.

„Ég þarf bara að segja þeim að þetta hafi verið vel spilaður leikur af okkar hálfu en því miður töpuðum við á góðum degi“.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira