Erlent

Facebook bannar „hættulega“ öfgamenn

Kjartan Kjartansson skrifar
Louis Farrakhan, leiðtogi Þjóðar íslams sem skilgreind hefur verið sem haturssamtök, og Alex Jones, stofnandi Infowars.
Louis Farrakhan, leiðtogi Þjóðar íslams sem skilgreind hefur verið sem haturssamtök, og Alex Jones, stofnandi Infowars. Vísir/AP
Stjórnendur samfélagsmiðlarisans Facebook hafa bannað öfgamenn eins og Alex Jones, stofnanda samsæriskenningamiðilsins Infowars, og Louis Farrakhan, leiðtoga Þjóðar íslams. Öfgamennirnir eru taldir brjóta gegn skilmálum Facebook um „hættulega einstaklinga“.

Bannið nær einnig til annarra miðla Facebook eins og Instagram, aðdáendasíða öfgamannanna og annarra tengdra reikninga. Auk Jones og Farrakhan hafa hægriöfgamenn sem eru áberandi í Bandaríkjunum eins og Paul Nehlen, Milo Yiannopoulos, Paul Joseph Watson og Laura Loomer verið bannaðir á Facebook.

Allir eiga þeir sem voru bannaðir það sameiginlegt að hafa dreift efni sem talið hefur verið hatursáróður, kynþáttahatur eða gyðingahatur, að sögn AP-fréttastofunnar. Facebook segir að fólkið hafi brotið gegn skilmálum miðilsins. Einstaklingar og stofnanir sem boði ofbeldi eða hatur hafi alltaf verið bannaðar á Facebook.

Jones hafði áður verið settur í tímabundið bann en nú er það varanlegt. Twitter hefur einnig bannað Jones, Loomer og Yiannopolous. Þeir sem urðu fyrir banninu saka Facebook um ritskoðun. Gagnrýnendur þeirra segja að Facebook sé aðeins að framfylgja eigin reglum fyrst núna með því að banna þá frá miðlinum.

Infowars, sem Jones stofnaði og Watson vann fyrir hefur meðal annars dreift samsæriskenningum um Sandy Hook-fjöldamorðið á grunnskólabörnum í Bandaríkjunum. Þjóð íslams sem Farrakhan stýrir hefur verið sökuð um að ala á andúð á gyðingum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.