Erlent

Alex Jones úthýst af Facebook

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Alex Jones er þekktur fyrir líflega framsögn og umdeildar skoðanir.
Alex Jones er þekktur fyrir líflega framsögn og umdeildar skoðanir. Skjáskot

Facebook-síðu hins litríka spjallþáttastjórnanda Alex Jones var lokað í gær. Í yfirlýsingu sem samfélagsmiðilinn sendi frá sér segir að lokunina megi rekja til þeirra samsæriskenninga og hatursáróðurs sem Jones hefur birt á síðunni í gegnum tíðina. Í þessu samhengi nefnir Facebook fjögur myndbönd sem birtust á síðu hans á síðustu misserum, sem brutu birtingarreglur miðilsins.

Lokunin gildir í 30 daga og segir Facebook að hætti þáttastjórnandinn ekki að brjóta reglur samfélagsmiðilsins verður öðrum síðum, til að mynda Facebook-síðu þáttar hans, Infowars, einnig lokað. Hinar síðurnar hafi þegar fengið aðvörun en ekki „brotið nógu mikið af sér“ eins og það er orðað, til að verða lokað.

Sjá einnig: Heyrðu óðar samsæriskenningar Alex Jones í stíl Bon Iver

Bannið þýðir að Jones getur ekki birt neinar færslur, hvorki á sinni eigin síðu eða öðrum, og þá getur hann ekki sent skilaboð.

Greint var frá því í liðinni viku að Youtube hafi einnig fjarlægt fjögur myndbönd af reikningi Infowars. Í yfirlýsingu frá myndbandaveitunni segir að Infowars eigi á hættu að vera lokað fyrir fullt og allt ef Jones sendir frá sér fleiri myndbönd sem brjóti reglur miðilsins. Infowars hefur ekki tjáð sig um málið við miðla vestanhafs.

Alex Jones hefur aukið vinsældir statt og stöðugt frá því að hann setti Infowars í loftið árið 1999. Hann þykir umdeildur vegna þeirra skoðana og kenninga sem hann reifar í myndböndunum sínum. Til að mynda segist hann sannfærður um að flest fjöldamorð í Bandaríkjunum séu sviðsetningar. 


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.