Erlent

Allir ráð­herr­ar aust­ur­rísk­a Frels­is­flokks­ins segj­a af sér

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Heinz-Christian Strache, fyrrverandi varakanslari Austurríkis.
Heinz-Christian Strache, fyrrverandi varakanslari Austurríkis. ean Gallup/Getty
Allir ráðherrar austurríska jaðar-hægriflokksins sem kennir sig við frelsi hafa sagt af sér í kjölfar hneykslismáls þar sem formaður flokksins og varakanslari Austurríkis náðist á myndband reyna að kaupa sér og flokki sínum jákvæða umfjöllun í fjölmiðlum.

Á föstudag birtu miðlarnir Der Spiegel og Süddeutsche Zeitung myndband þar sem Heinz-Christian Strache, nú fyrrum leiðtogi Frelsisflokksins og varakanslari Austurríkis, virðist bjóðast til þess að semja við rússneska konu gegn því að hún komi boðskap frelsisflokksins á framfæri í austurrískum fjölmiðlinum Kronen-Zeitung. Myndbandið var tekið upp á Ibiza skömmu fyrir austurrísku kosningarnar 2017.

Strache sagði af sér á laugardag vegna málsins, auk þess sem Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis, sleit ríkisstjórnarsamstarfi flokks síns, Þjóðarflokksins, við Frelsisflokkinn og boðaði til kosninga.

Auk varakanslarans fyrrverandi hafa fjórir ráðherrar flokksins nú sagt af sér vegna málsins. Það eru þau Herbert Kickl innanríkisráðherra, Mari Kunasek varnarmálaráðherra, Beate Hartinger-Klein, félags- heilbrigðis- vinnu- og neytendamálaráðherra, og Norbert Hofer, nýsköpunar- tækni- og ferðamálaráðherra. Við þennan lista bætist svo Karin Kneissl utanríkisráðherra. Hún er tilheyrir engum flokki opinberlega og telst því óháð, en var útnefnd í embætti sitt af Frelsisflokknum.

Ástæða afsagnarinnar er sú að eftir að málið komst í hámæli kallaði Kurz eftir því að innanríkisráðherrann, Herbert Kickl, sem einnig er aðalritari Frelsisflokksins, tæki pokann sinn vegna málsins.

Ráðherrar Frelsisflokksins svöruðu því með hótun um að segja allir af sér, yrði Kickl bolað úr embætti. Kurz hélt kröfu sinni aftur á móti til streitu og því fór svo að allir ráðherrar Frelsisflokksins sögðu af sér.

 


Tengdar fréttir

Varakanslari Austurríkis segir af sér vegna ásakana um spillingu

Heinz-Christian Strache, vara-kanslari Austurríkis hefur sagt af sér embætti varakanslara og embætti leiðtoga eftir að myndband komst í dreifingu þar sem hann virðist bjóðast til þess að semja við rússneska konu gegn því að hún komi boðskap frelsisflokksins á framfæri í austurrískum fjölmiðlinum Kronen-Zeitung.

Boðað til óvæntra kosninga í Austurríki

Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis og , hefur slitið ríkisstjórnarsamstarfi flokks síns Þjóðarflokksins við fjar-hægri Frelsisflokkinn og boðað til kosninga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×