Luiz Inácio Lula da Silva, fyrrverandi forseti Brasilíu, hefur verið látinn laus úr fangelsi. Da Silva, sem er betur þekktur sem Lula, var dæmdur í tæplega aldarfjórðungs fangelsi fyrir spillingu og mútuþægni.
Hæstiréttur landsins fyrirskipaði að Lula yrði látinn laus úr haldi eftir úrskurð í máli hans. Rétturinn sagði sakamenn einungis eiga að sitja inni ef þeir hefðu fengið að láta að reyna á mál sitt fyrir öllum dómstigum í landinu. Áður hafði rétturinn hafnað kröfu hans um að vera látinn laus á meðan rétturinn tæki afstöðu til áfrýjunar hans.
Sjá einnig: Lula verður ekki sleppt á næstunni
Lula gaf sig sjálfur fram við lögregluyfirvöld þar í landi í apríl á síðasta ári. Hann fullyrti þó að ákæran gegn sér hafi verið á pólitískum forsendum í því skyni að koma í veg fyrir að hann byði sig aftur fram til forseta og hélt fram sakleysi sínu.
Stuðningsmenn Lula tóku á móti honum þegar hann yfirgaf fangelsið í borginni Curitiba. Þrátt fyrir vinsældir fyrrverandi forsetans fær hann ekki að bjóða sig aftur fram vegna sakaskrár sinnar.
Hann var fyrsti forsetinn af vinstri væng stjórnmálanna þar í landi í rúmlega hálfa öld og sat í því embætti á árunum 2003 til 2011. Hann þótti líklegur til sigurs í kosningunum í október á síðasta ári þar sem Jair Bolsonaro náði kjöri.
Fyrr á árinu voru smáskilaboð sem Sergio Moro, dómari í máli Lula, og saksóknararnir í málinu skiptust á þegar réttarhöldin yfir honum stóðu yfir gerð opinber. Þar gaf Moro saksóknurum ráð um hvernig þeir skyldu haga máli sínu. Moro er nú dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Jairs Bolsonaro forseta.
