Erlent

Lula verður ekki sleppt á næstunni

Kjartan Kjartansson skrifar
Lula da Silva þegar hann fékk leyfi til að vera viðstaddur útför barnabarns síns í mars.
Lula da Silva þegar hann fékk leyfi til að vera viðstaddur útför barnabarns síns í mars. Vísir/EPA
Hæstiréttur Brasilíu hafnaði kröfu um að Luiz Inácio Lula da Silva, fyrrverandi forseti landsins, yrði látinn laus úr fangelsi á meðan rétturinn tekur afstöðu til áfrýjunar hans á spillingardómi. Áætlað er að dómur hæstaréttarins liggi fyrir í ágúst.Lula var dæmdur í tæplega aldarfjórðungsfangelsi vegna spillingar í tengslum við meiriháttar spillingarmál sem hefur skekið Brasilíu undanfarin ár. Lögmenn hans halda því fram að Sergio Moro, dómarinn í máli hans, hafi ekki verið hlutlaus.Skammt er síðan smáskilaboð sem Moro og saksóknararnir í máli Lula skiptust á þegar réttarhöldin yfir honum stóðu yfir voru gerð opinber. Þar gaf Moro saksóknurum ráð um hvernig þeir skyldu haga máli sínu. Moro er nú dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Jairs Bolsonaro forseta.Sjálfur hefur Lula lýst yfir sakleysi sínu og fullyrðir að ákæran gegn sér hafi átt sér pólitískar rætur. Ætlunin hafi verið að meina honum að bjóða sig fram aftur til forseta í fyrra.Moro neitar því að hafa gert nokkuð rangt í samskiptum sínum við saksóknara og situr enn sem ráðherra þrátt fyrir áköll um afsögn. Hæstirétturinn hefur sagt að hann telji ástæðu til að rannsaka skilaboðin Moro og saksóknaranna áður en hægt verður að leggja þau fram sem sönnunargögn í málinu, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.