Erlent

Trump dregur Bandaríkin út úr vopnaviðskiptasáttmála Sameinuðu þjóðanna

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Trump ávarpar hér samkomu Landssambands byssueigenda í Bandaríkjunum, eða NRA.
Trump ávarpar hér samkomu Landssambands byssueigenda í Bandaríkjunum, eða NRA. Daniel Acker/Getty
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tilkynnt að Bandaríkin muni láta af stuðningi sínum við sáttmála Sameinuðu þjóðanna sem ætlað er að fylgjast með og koma reglu á vopnamarkaði heimsins.

Þetta tilkynnti Trump í ræðu þar sem forsetinn ávarpaði fund Landssambands byssueigenda í Bandaríkjunum, (e. NRA) í Indianapolis í dag. Bandaríkin höfðu áður ritað undir stuðningsyfirlýsingu við sáttmálann en svo virðist sem Trump hafi nú snúist hugur.

„Ríkisstjórn mín mun aldrei fullgilda vopnaviðskiptasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Við ætlum að taka undirskrift okkar til baka. SÞ mun brátt fá formlega tilkynningu þess efnis að Bandaríkin hafni þessum sáttmála.

Trump bætti svo við að meðan hann væri við stjórnvölinn væri engin hætta á að fullveldi Bandaríkjanna yrði afsalað til nokkurs.

„Við munum ekki leyfa erlendum kerfiskörlum að traðka á rétti ykkar sem bundinn er í annan viðauka stjórnarskrárinnar. Það tilkynnist því hér með að Bandaríkin draga til baka þau áhrif sem undirskrift okkar við þennan afvegaleidda sáttmála hefur.“

Bandaríkin skrifuðu undir sáttmálann árið 2013, í stjórnartíð Baracks Obama, en hann var þó aldrei formlega tekinn í gildi. Síðan þá hefur Landssamband byssueigenda í Bandaríkjunum haldið því fram að sáttmálinn ógni öðrum viðauka stjórnarskrárinnar, en hann kveður einmitt á um að réttur þjóðarinnar „til að eiga og bera vopn óskertur látinn.“

Vert er þó að taka fram að með innleiðingu sáttmálans í Bandaríkjunum hyrfi annar viðauki stjórnarskrárinnar ekki á braut. Sáttmálanum er ætlað að auka eftirlit og reglugerðir á hendur vopnaframleiðendum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×