Ómannað tunglfar Indverja er nú komið á sporbaug um tunglið en því var skotið á loft fyrir tæpum mánuði og hingað til hefur aðgerðin tekist vel.
Farið, sem kallað er Chandrayaan -2 tók á loft frá Shriharikota geimferðastöðinni á Indlandi 22. júlí eftir nokkrar tafir vegna tæknilegra örðugleika. Nú er farið komið á sporbaug og er næsta skref að lenda á Suðurpól tunglsins en það yrði í fyrsta sinn sem tunglfar lendir á því svæði.
Búist er við því að lendingin verði sjötta eða sjöunda september næstkomandi, gangi allt að óskum. Þetta er í annað sinn sem Indverjar skjóta fari til tunglsins en í fyrra skiptið var þó ekki um tungllendingu að ræða.
Nú er ætlunin að rannsaka suðurpólssvæðið og leita að vatni og jarðefnum.
