Erlent

Rússneskum fána flaggað í Salisbury

Andri Eysteinsson skrifar
Stór rússneskur fáni blasti við íbúum Salisbury í morgun.
Stór rússneskur fáni blasti við íbúum Salisbury í morgun. Twitter/KlaasM67
Íbúar bresku borgarinnar Salisbury, hvar eitrað var fyrir rússneska njósnaranum fyrrverandi, Sergei Skripal, eru ósáttir eftir að stórum rússneskum fána var komið fyrir á vinnupöllum við dómkirkjuna í borginni. BBC greinir frá.

Mikið var fjallað um eitrunina á síðasta ári. Bresk yfirvöld sökuðu rússnesk yfirvöld um verknaðinn en Rússar neita.

Bresk yfirvöld birtu nöfn og myndir tveggja manna sem þau töldu hafa eitrað fyrir Sergei Skripal og dóttur hans, Júlíu Skripal í mars 2018. Rússlandsstjórn kvað mennina vera óbreytta borgara en ekki útsendara herleyniþjónustunnar GRU, líkt Bretar höfðu haldið fram.

Nokkru seinna voru hjónin Dawn Sturgess og Charlie Rowley lögð inn á spítala en þau reyndust hafa komist í snertingu við Novichok eitrið sem notað var gegn Skripal. Sturgess lést nokkrum dögum eftir að hafa verið lögð inn.

Verkamenn sem vinna við lagfæringu á dómkirkjunni í Salisbury tóku eftir Rússneska fánanum og tóku hann niður.

Fjöldi Breta, þar með taldir þingmenn, hafa sagt atvikið ósmekklegt og segja það vanvirðingu við hina látnu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×