Erlent

Rannsaka möguleg tengsl Skrípalmálsins við eiturárás í Búlgaríu

Kjartan Kjartansson skrifar
Borisov, forsætisráðherra Búlgaríu, segir þarlenda lögreglumenn vinna með breskum lögreglu- og leyniþjónustumönnum að rannsókninni.
Borisov, forsætisráðherra Búlgaríu, segir þarlenda lögreglumenn vinna með breskum lögreglu- og leyniþjónustumönnum að rannsókninni. Vísir/EPA
Forsætisráðherra Búlgaríu segir að breskir rannsóknarlögreglumenn vinni nú með lögreglunni þar í landi að rannsókn á mögulegum tengslum taugaeitursárásarinnar á Sergei Skrípal í fyrra og óupplýstrar árásar á búlgarskan vopnasala árið 2015.

Emilian Gebrev, eignandi vopnaverksmiðju, sonur hans og einn stjórnenda fyrirtækis hans urðu fyrir eitrun árið 2015. Þeir féllu í dá en lifðu eitrunina af. Málið hefur aldrei verið upplýst.

Eftir að eitrað var fyrir Skrípal, rússneskum fyrrverandi njósnara, í bænum Salisbury á Englandi í mars í fyrra hafði Gebrev samband við búlgarska saksóknara og lét þá fá niðurstöður rannsókna sem gerðar voru á þeim árið 2015. The Guardian segir að Gebrev telji að þremenningunum hafi verið byrlað taugaeitrið novichok sem notað var í tilræðinu gegn Skrípal.

Boyko Borisov, forsætisráðherra Búlgaríu, segir að þegar yfirvöld hafi heyrt af möguleikanum á að novichok hafi komið við sögu hafi þau þegar sett sig í samband við bresk stjórnvöld. Það hafi gerst fyrir nokkrum mánuðum.

Vefsíðan Bellingcat, sem ljóstraði upp um nöfn tilræðismanna Skrípal í fyrra, birti frétt í síðustu viku þar sem kom fram að annar grunaður rússneskur leyniþjónustumaður hafi bæðið verið í Búlgaríu þegar eitrað var fyrir Gebrev og í Bretlandi þegar árásin á Skrípal var gerð.

Sjálfur segist Gebrev ekki vita hvers vegna rússneska leyniþjónustan hefði átt að vilja eitra fyrir honum. Rússnesk stjórnvöld hafa ítrekað neitað því að hafa komið nærri Skrípal-tilræðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×