Erlent

Harvey Weinstein ákærður fyrir nauðgun og fleiri kynferðisbrot

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Harvey Weinstein er 66 ára og hefur um árabil verið einn áhrifamesti maðurinn í kvikmyndaiðnaðinum í Hollywood.
Harvey Weinstein er 66 ára og hefur um árabil verið einn áhrifamesti maðurinn í kvikmyndaiðnaðinum í Hollywood. Vísir/Getty

Kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein hefur verið ákærður fyrir nauðgun og fyrir nokkur önnur brot gagnvart tveimur konum. Weinstein gaf sig í morgun fram við lögregluyfirvöld í New York en hann hefur verið til rannsóknar hjá lögreglunni undanfarna mánuði.

Weinstein var um skeið einn farsælasti kvikmyndaframleiðandi í Hollywood en á síðustu mánuðum hafa fjölmargar konur í kvikmyndaiðnaðinum stigið fram og sakað Weinstein um að hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi.

Fjöldi leikkvenna hefur greint frá því að Weinstein hafi beitt áhrifum sínum í Hollywood og hótað því að koma í veg fyrir framgang þeirra í starfi myndu þær ekki beygja sig undir vilja Weinsteins.

Konan sem sakar Weinstein um nauðgun, sem hann hefur nú verið ákærður fyrir, hefur ekki greint frá brotunum opinberlega. AP greinir hins vegar frá því að meðal þeirra kynferðisbrota sem hann er ákærður fyrir er að hafa þvingað Luciu Evans til munnmaka á skrifstofu sinni árið 2004. Evans var ein af fyrstu konunum sem stigu fram og sökuðu Weinstein um kynferðisbrot.

Weinstein er 66 ára gamall og hefur að undanförnu dvalið á meðferðarstofnun í Arizona hvar hann sótti meðferð við kynlífsfíkn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×