Nelson Chamisa, forsetaframbjóðandi Hreyfingarinnar fyrir lýðræðisumbætur (MDC) í Simbabve, sagðist í gær sigurviss þrátt fyrir að kjörstjórn „svindlaði og prettaði“ til þess að hjálpa Emmerson Mnangagwa, sitjandi forseta og frambjóðanda Afríska þjóðarbandalags Simbabve (ZANU-PF).
Kjörstjórnin er hliðholl Mnangagwa og kosningarnar verða eintómt svindl, að því er Chamisa heldur fram. „Við munum vinna bæði dómarann og andstæðinginn. Við leyfum þeim ekki að komast upp með þetta,“ sagði hann á blaðamannafundi.
Til stuðnings máli sínu benti hann á að kjörstjórn hafi ekki viljað veita upplýsingar um hversu margir kjörseðlar hafi verið prentaðir né hvernig öryggi þeirra væri tryggt.
Orðrómur hafði verið uppi um að Chamisa myndi draga framboð sitt til baka og hvetja til sniðgöngu. Því hafnaði hann. „Við getum ekki sniðgengið eigin sigur. Sigurvegarar hætta ekki bara. Á þriðjudaginn verður kominn nýr forseti. Það er óumflýjanlegt. Við erum óstöðvandi,“ sagði Chamisa við stuðningsmenn, en kosið er á mánudag.
Mnangagwa bannaði stjórnarandstæðingum í gær að mótmæla kjörstjórninni í höfuðborginni Harare. „Ef einhver stuðlar að stjórnleysi munu lögin hafa yfirhöndina. Við leyfum ekki glundroða í landinu okkar. Við viljum frið,“ sagði forsetinn.
Mnangagwa sakaður um að svindla í kosningunum
Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
