Erlent

Fyrrverandi yfirmaður hersins drepinn í árás

Atli Ísleifsson skrifar
Alex Badeh í viðtali árið 2014.
Alex Badeh í viðtali árið 2014. EPA
Fyrrverandi yfirmaður nígeríska hersins var skotinn til bana í árás fyrir utan höfuðborgina Abuja í gær. Árásin þykir skýrt merki um versnandi stöðu öryggismála í landinu.

Alex Badeh var skotinn til bana þar sem ráðist var á bíl sem hann var farþegi í. Ekki liggur fyrir hver eða hverjir bera ábyrgð á árásinni eða um ástæður hennar.

Badeh var yfirmaður nígeríska hersins í valdatíð Goodluck Jonathan forseta, en var vikið úr embætti árið 2015. Eftir að hann lét af embætti hefur hann þurft að sæta rannsókn vegna gruns um spillingu í embættistíð sinni.

Nígería er fjölmennasta land Afríku og glímir við fjölda vandamála. Vígamenn úr röðum hryðjuverkasamtakanna Boko Haram hafa herjað á íbúa í norðausturhluta landsins, spilling er umfangsmikil í stjórnkerfinu og ítrekað hefur komið til átaka milli hirðingja og bænda í landinu miðju. Þá hafa mannránum fjölgað mikið á síðustu misserum.

Muhammadu Buhari tók við embætti forseta Nígeríu árið 2015 og hefur sætt gagnrýni fyrir að hafa mistekist að ná tökum á bágri stöðu öryggismála í landinu.

Kosningar fara fram í landinu í febrúar næstkomandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×