Erlent

Forseti Nígeríu sækist eftir endurkjöri

Atli Ísleifsson skrifar
Muhammadu Buhari var kjörinn forseti Nígeríu árið 2015.
Muhammadu Buhari var kjörinn forseti Nígeríu árið 2015. Vísir/Getty
Muhammadu Buhari, forseti Nígeríu, hefur sóst eftir endurkjöri en forsetakosningar fara fram í landinu á næsta ári. Stjórnarflokkurinn APC lýsti í gær yfir stuðningi við framboð Buhari.

Aftonbladet segir frá því að á sjötta tug þingmanna úr röðum APC hafi á síðustu misserum sagt skilið við flokkinn og gengið til liðs við flokka í stjórnarandstöðunni.

Buhari hefur verið undir talsverðum þrýstingi í kjölfar hins mikla flótta úr þingliði APC. Flestir hafa þingmennirnir gengið til liðs við stærsta flokkinn í stjórnarandstöðu, PDP.

Buhari var kjörinn forseti árið 2015 eftir loforð um að auka öryggi í landinu og taka harkalega á víðtækri spillingu í stjórnkerfinu. Staða Buhari hefur verið sterk, en óánægjan með ríkisstjórn hans hefur fært stjórnarandstöðunni aukinn vind í seglin.

Forsetakosningar fara fram í landinu þann 16. febrúar. Forseti getur að hámarki setið tvö kjörtímabil í Nígeríu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×