Enski boltinn

Klopp: Gat ekki haldið aftur af mér

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Klopp hljóp inn á völlinn og féll í faðma Alisson
Klopp hljóp inn á völlinn og féll í faðma Alisson vísir/getty
Jurgen Klopp gat ekki hamið fögnuð sinn þegar Divock Origi skoraði sigurmark Liverpool gegn Everton í uppbótartíma á Anfield í dag. Þýski knattspyrnustjórinn hljóp inn á völlinn í fagnaðarlátum sínum þó leiktíminn væri ekki úti.

„Ég verð að biðjast afsökunar. Ég vildi ekki brjóta af mér en ég gat bara ekki haldið aftur af mér,“ sagði Jurgen Klopp við Sky Sports í leikslok.

Flestir sparksérfræðingar eru á því að hegðun Klopp sé óviðunandi og hann eigi að fá refsingu fyrir. Margir stuðningsmenn fagna þó ástríðunni í Þjóðverjanum.

„Ef ég gæti lýst því hvernig mér líður þá hefði ég kannski getað haft stjórn á mér. Við viljum ekki leita að afsökunum, svona er þetta. Ég veit ekki hvað knattspyrnusambandið gerir í svona málum en ég verð bara að bíða og sjá.“

„Ég bað Marco Silva strax afsökunnar, ég vildi ekki sýna honum vanvirðingu.“

„Ákafinn í leiknum var ótrúlegur. Bæði lið áttu færi og báðir markverðirnir voru frábærir. Í lokin réðust úrslitin á mjög skrýtnu marki.“

„Ég get ekki einu sinni ímyndað mér vonbrigði Everton en við tökum þessu.“

„Þetta Everton-lið er mjög gott og það er erfitt að yfirspila þá. Ég gæti ekki borið meiri virðingu fyrir þeim.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×