Erlent

Giuliani kennir Twitter um eigin mistök og hrekk

Samúel Karl Ólason skrifar
Netöryggisráðgjafi forseta Bandaríkjanna, Rudy Giuliani.
Netöryggisráðgjafi forseta Bandaríkjanna, Rudy Giuliani. EPA/MICHAEL REYNOLDS

Rudy Giuliani, fyrrverandi borgarstjóri New York, og einn af æðstu lögmönnum Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, er sannfærður um að starfsmenn Twitter hati Donald Trump. Til sönnunar þess segir Giuliani að Twitter hafi bætt hatursskilaboðum um Trump í tíst sem hann skrifaði þann 30. nóvember.

Það er óhætt að segja að borgarstjórinn fyrrverandi hafi rangt fyrir sér. Í það minnsta hefur hann rangt fyrir sér að starfsmenn Twitter hafi bætt við tíst hans. Það má vel vera að starfsmenn samfélagsmiðlafyrirtækisins hati Donald Trump.

Í umræddu tísti var Giuliani að skammast út í Rússarannsóknina svokölluðu, sem er starf hans, og sagði Robert Mueller, sérstakan rannsakanda Dómsmálaráðuneytisins, vera stjórnlausan. Hann gleymdi þó að gera bil á milli setninga og setti óvart inn vefslóðina G-20.In

Þegar slíkt er gert á Twitter, tengir forritið slóðina við umrætt vefsvæði.

Vefsvæði þetta var þó ekki í notkun. Þar til maður að nafni Jason Velazques tók eftir mistökunum og keypti vefsvæðið fyrir nokkur hundruð krónur. Þar setti hann inn einföld skilaboð.

„Donald Trump er föðurlandssvikari.“

Skilaboðin á vefslóðinni G-20.In.

Í samtali við New York Times segir Velazquez að þetta hafi tekið hann um fimmtán mínútur.

Tiltölulega fáir tóku eftir hrekknum, þó einhverjir miðlar hefðu fjallað um hann, og hann hefði vafalaust horfið eins og dögg fyrir sólu, ef Giuliani sjálfur hefði ekki vakið athygli á honum í nótt.

Velazquez segist gáttaður á því að Giuliani hafi ekki einfaldlega eytt tístinu.

Giuliani hélt því fram á Twitter í nótt að Twitter hefði gert einhverjum kleift að brjótast inn í tíst hans og koma þar fyrir andstyggilegum skilaboðum um Trump. Til sönnunar þess að ekki hefði verið um slys að ræða benti giuliani á að hann hefði gleymt bili seinna í tístinu og þar hefði Twitter ekki sett tengil.

Twitter hefði sum sé ekki sett tengil á hina meintu vefslóð: Helsinki.Either. Það er ekki virkt vefsvæði.

Þetta sagði Giuliani, sem meðal annars er titlaður sem ráðgjafi Trump varðandi netöryggi, vera til sönnunar um hatur Twitter gagnvart Trump.

Talsmaður Twitter sagði New York Times að ásakanir Giuliani væru algerlega rangar. Fyrirtækið gæti ekki breytt tístum notenda.

Íhaldsmenn í Bandaríkjunum og víðar hafa lengi sakað samfélagsmiðla og tæknifyrirtæki um að vinna gegn sér, án þess þó að hafa mikið fyrir sér í þeim málum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.