Erlent

Húsleit í höfuðstöðvum Deutsche Bank

Samúel Karl Ólason skrifar
Verið er að leita sérstaklega að upplýsingum um tvo starfsmenn bankans sakaðir eru um að hafa hjálpað skjólstæðingum sínum að þvo fé.
Verið er að leita sérstaklega að upplýsingum um tvo starfsmenn bankans sakaðir eru um að hafa hjálpað skjólstæðingum sínum að þvo fé. AP/Michael Probst
Um 170 lögregluþjónar og aðrir embættismenn framkvæmdu húsleit í skrifstofuhúsnæði Deutsce Bank í Frankfurt í dag. Það var gert vegna ásakana um umfangsmikið peningaþvætti bankans. Verið er að leita sérstaklega að upplýsingum um tvo starfsmenn bankans sakaðir eru um að hafa hjálpað skjólstæðingum sínum að þvo fé.

Rætur rannsóknarinnar má rekja til Panamaskjalanna frá Mossack Fonseca sem lekið var til fjölmiðla árið 2016. Þá tengist málið sömuleiðis peningaþvætti í gegnum útibú Danske Bank í Eistlandi.

Allt að 150 milljarðar evra sem voru þvættaðar í gegnum Danske bank runnu í gegnum þýska bankann Deutsche bank að sögn fyrrverandi framkvæmdastjóra danska bankans sem gerðist uppljóstrari í málinu.

Sjá einnig: Deutsche bank bendlaður við peningaþvættishneyksli Danske bank

BBC bendir á að Deutsche Bank hafi verið refsað áður vegna peningaþvættis. Fjármálaráðuneyti Þýskalands skipaði forsvarsmönnum bankans í september að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir peningaþvætti og að fjármagn ætlað hryðjuverkasamtökum færi í gegnum bankann. Þá var sérstakur eftirlitsmaður skipaður til að fylgjast með bankanum í þrjú ár.

Yfirvöld Bandaríkjanna og Bretlands sektuðu bankann í fyrra í tengslum við peningaþvætti rússneskra auðjöfra.

Reuters segir virði hlutabréfa fyrirtækisins hafa lækkað eftir að fregnir bárust af húsleitunum. Tekjur Deutsche Bank hafa dregist saman að undanförnu og nýr forstjóri fyrirtækisins hefur gripið til þess ráðs að segja upp fólki og skera niður kostnað.

Á þessu ári hefur virði hlutabréfa Deutsche Banka lækkað um helming.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×