Erlent

Sakar forsætisráðherrann um kynferðislegar aðdróttanir

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Pamela Anderson vandar forsætisráðherranum ekki kveðjurnar.
Pamela Anderson vandar forsætisráðherranum ekki kveðjurnar. Getty/NBCUniversal
Bandaríska leikkonan Pamela Anderson sakaði forsætisráðherra Ástralíu, Scott Morrison, um að hafa haft um sig klámfengin ummæli eftir að hún bað hann um að aðstoða Julian Assange, stofnanda Wikileaks.

Assange er ástralskur ríkisborgari en sótti um hæli í sendiráði Ekvador í London og hefur dvalið þar síðan árið 2012, upphaflega til að komast hjá því að vera framseldur til Svíþjóðar. Assange óttast nú að verða framseldur til Bandaríkjanna og dvelur enn í húsnæði sendiráðsins.

Anderson hefur verið stuðningsmaður Assange um nokkurt skeið. Á dögunum bað hún forsætisráðherra Ástralíu, téðan Morrison, um að hjálpa Assange að komast aftur til Ástralíu. Morrison hafnaði beiðni Anderson en sagðist þó eiga „fjöldan allan af vinum“ sem hafi boðist til þess að gegna hlutverki „sérstaks erindreka“ í samskiptum við Anderson.

Anderson svaraði ummælunum í opnu bréfi sem hún birti í gær og fordæmdi þar kynferðislegar aðdróttanir forsætisráðherrans í sinn garð.

„Þú gerðir lítið úr og hlóst að þjáningu Ástrala og fjölskyldu hans. Þú fylgdir því svo eftir með klámfengnum, óþörfum athugasemdum um konu sem tjáði pólitíska skoðun sína,“ skrifaði Anderson.

Ráðamenn í Ástralíu hafa nokkrir lýst yfir stuðningi við Anderson. Steve Ciobo, ráðherra í ríkisstjórn Morrison, tjáði þó áströlskum fjölmiðlum að ummæli forsætisráðherrans bæri ekki að taka alvarlega.


Tengdar fréttir

Assange höfðar mál gegn Ekvador

Julian Assange, stofnandi og fyrrverandi ritstjóri Wikileaks, er að höfða mál gegn ríkisstjórn Ekvador, sem hann sakar um að brjóta á mannréttindum sínum og frelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×