Erlent

Fjöldamorðinginn í Pittsburgh ákærður fyrir hatursglæpi

Kjartan Kjartansson skrifar
Flaggað var í hálfa stöng við Washington-minnisvarðann í Washington-borg til að heiðra minningu fórnarlamba fjöldamorðsins í gær.
Flaggað var í hálfa stöng við Washington-minnisvarðann í Washington-borg til að heiðra minningu fórnarlamba fjöldamorðsins í gær. Vísir/EPA
Karlmaður sem skaut ellefu manns til bana í bænahúsi gyðinga í bandarísku borginni Pittsburgh á laugardag var ákærður fyrir glæpi sína í 44 liðum, þar á meðal fyrir hatursglæpi. Í ákærunni kemur fram að á meðan á blóðbaðinu stóð hafi maðurinn lýst vilja sínum til að „drepa gyðinga“.

Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, kynnti ákæru alríkisstjórnarinnar á hendur Robert Bowers, 46 ára gömlum karlmanni, í dag. Lýsti hann voðaverkum morðingjans sem „óskiljanlegri illsku og algerlega viðurstyggileg gildum þessarar þjóðar“, að því er segir í frétt Washington Post.

Bowers er ákærður fyrir morð á ellefu manns. Fyrir hvert fórnarlamb sitt er hann einnig ákærður fyrir að hindra rétt þeirra til að tjá trú sína með því að valda dauða þeirra og fyrir að hafa beitt skotvopni til að fremja morð. Þá er maðurinn ákærður fyrir að særa lögreglumenn og tilraun til að myrða fleiri gesti bænahússins.

Auk alríkisákærunnar á Bowers yfir höfði sér ákæru frá Pennyslvaníuríki.

Morðinginn gæti átt dauðadóm yfir höfði sér. Dómsmálaráðuneytið hefur sagt að saksóknarar í Pittsburg séu byrjaðir að leggja drög að því að krefjast dauðarefsingar yfir honum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×