Erlent

Hetja í Þelamörk látin

Kjartan Kjartansson skrifar
Þýskur hermaður í Osló í síðari heimsstyrjöldinni. Nasistar hernámu Noreg árið 1940 og héldu til stríðsloka árið 1945.
Þýskur hermaður í Osló í síðari heimsstyrjöldinni. Nasistar hernámu Noreg árið 1940 og héldu til stríðsloka árið 1945. Vísir/Getty
Joachim Rønneberg, norskur fyrrum andspyrnumaður sem tók þátt í að spilla fyrir áætlunum nasista um þróun kjarnavopna í síðari heimsstyrjöldinni, er látinn, 99 ára að aldri. Forsætisráðherra Noregs lýsir Rønneberg sem einni mestu hetju þjóðarinnar.

Rønneberg tók þátt í háleynilegri aðgerð norsku andspyrnuhreyfingarinnar í verksmiðju nasista í Þelamörk í sunnanverðum Noregi árið 1943. Nasistar þurftu mikið magn af svonefndu þungvatni fyrir kjarnorkutilraunir sínar en það var þá aðeins framleitt í verksmiðju Norsk Hydro í Rjukan.

Ásamt fjórum öðrum andspyrnumönnum kastaði Rønneberg með fallhlíf úr flugvél yfir heiði og skíðaði svo að verksmiðjunni þar sem þeir komu fyrir sprengjum. Flúðu mennirnir svo á skíðum yfir 300 kílómetra til Svíþjóðar, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

„Það hvarflaði oft að okkur að þetta væri ferð sem væri aðeins aðra leiðina,“ sagði Rønneberg um aðgerðina.

Hollywood-kvikmynd var gerð um hetjudáð Rønneberg og félaga árið 1965. Titill myndarinnar var „Hetjurnar í Þelamörk“ og skartaði hún bandaríska leikaranum Kirk Douglas í aðalhlutverki.

„Hann er ein okkar mestu hetja. Rønneberg er líklega síðasti af þekktustu andspyrnumönnunum sem fellur frá,“ sagði Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, um fráfall Rønneberg.

Engu að síður vildi Rønneberg sem minnst tjá sig um hetjudáðir sínar í stríðinu lengi framan af. Síðar helgaði hann sig útvarpsstörfum og hóf að vara ungt fólk við stríði.

„Þeir sem alast upp í dag þurfa að skilja að við verðum alltaf að vera tilbúin að berjast fyrir friði og frelsi,“ sagði hann.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.