Erlent

Formaður finnskra Græningja hættir vegna glímu sinnar við þunglyndi

Atli Ísleifsson skrifar
Tuoko Aalto var kjörinn formaður finnskra Græningja í júní 2017.
Tuoko Aalto var kjörinn formaður finnskra Græningja í júní 2017. Mynd/Vijreät
Formaður finnskra Græningja hefur ákveðið að láta af embætti eftir að hafa verið í veikindaleyfi í nokkurn tíma. YLE greinir frá þessu.

Touko Aalto greindi frá því í færslu á Facebook í morgun að glíma hans við þunglyndi hafi gert hann óvinnufæran og að flokkurinn þurfi nýjan leiðtoga. Hann þurfi lengri tíma til að ná heilsu og að flokkurinn þurfi annan til að leiða flokkinn í kosningum.

„Ákvörðunin var ekki létt, en sú eina rétta í stöðunni. Heilsu minnar vegna get ég ekki þjónað liði mínu. Ég lagðist í þunglyndi fyrir ári síðan. Ég gerði mitt besta en sjúkdómurinn og þreytan hafa gert mig óvinnufæran,“ segir Aalto.

Aalto fór í veikindaleyfi í september síðastliðinn og hafa fjórir deilt formennskunni í flokknum í fjarveru hans.

Kosningar í apríl

Touko Aalto var kjörinn formaður Græningja í júní 2017, en fylgi flokksins í skoðanakönnunum hefur dalað að undanförnu.

Græningjar munu kjósa sér nýjan formann í byrjun nóvembermánaðar, en þingkosningar fara næst fram í Finnlandi í apríl á næsta ári.

Græningjar eru með fimmtán fulltrúa á finnska þinginu og eru í stjórnarandstöðu. Hinn 34 ára Aalto tók sæti á þinginu árið 2015.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×