Erlent

Fréttamaður faldi sig í runna til að afhjúpa ólöglega innflytjendur

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Griff Jenkins, á vettvangi.
Griff Jenkins, á vettvangi. Mynd/Skjáskot
Griff Jenkins, fréttamaður Fox News í Bandaríkjunum, virðist hafa tekið lögin í sínar eigin hendur á dögunum er hann faldi sig í runna á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó til þess að afjúpa tilraun hóps ólöglegra innflytjenda til þess að komast yfir landamærin til Bandaríkjanna.

Innslagið var sýnt á Fox News en það var tekið upp í McAllen í Texas-ríki Bandaríkjanna. Þar má sjá hvernig Jenkins felur sig í runna við. Útskýrir hann fyrir áhorfendum hvað hann hafi í huga áður en hann fer að árbakka þar sem hann kemur auga á hóp ólöglegra innflytjenda á gúmmíbát á leið yfir landamærin.

„Við földum okkar í runna og biðum þar áður en við gómuðum þau,“ segir Jenkins í innslaginu. Kallaði hann á hópinn og spyr hvað þau séu að reyna að gera. Hópurinn snýr þá við og fer aftur í land. Í sömu andrá rennur eftirfarandi texti eftir skjánum: „Griff kemur í veg fyrir að ólöglegir innflytjendur fari yfir landamærin“.

Síðar í innslaginu hitti Jenkins hópinn aftur en þá hafði honum tekist að komast yfir landamærin til Bandaríkjanna.

„Geturðu sagt mér af hverju þú komst hingað ólöglega,“ spyr Jenkins konu í hópnum sem var frá Hondúras.

„Vegna þess að það er ekki hægt að vinna þar án þess að glæpamenn steli peningunum manns,“ svarar konan en innslagið má sjá hér að neðan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×