Erlent

Hinn grunaði á langan sakaferil að baki

Samúel Karl Ólason skrifar
Rannsakendur hafa meðal annars skoðað sendiferðabíl sem er í eigu Sayoc.
Rannsakendur hafa meðal annars skoðað sendiferðabíl sem er í eigu Sayoc. Vísir/AP
Yfirvöld Bandaríkjanna hafa opinberað nafn mannsins sem grunaður er um að hafa sent sprengjur víða um Bandaríkin á undanförnum dögum. Hann heitir Cesar Sayoc, er 56 ára gamall, og á langan sakaferil að baki. Fleiri en tíu sprengjur hafa á undanförnum dögum verið sendar á pólitíska andstæðinga og gagnrýnendur Donald Trump, forseta Bandaríkjanna.

Hann er grunaður um að hafa sent minnst fjórtán sprengjur og Alríkislögreglan segir hann hafa skilið fingraför sín eftir á minnst einni þeirra. Hann hefur verið ákærður fyrir fimm glæpi og á yfir höfði sér allt að 58 ára fangelsisvist.

Trump fordæmdi sendingarnar í dag og sagði að Bandaríkjamenn ættu að sameinast. Það var þó einungis nokkrum klukkustundum eftir að hann kvartaði yfir því á Twitter hve mikið fjölmiðlar fjölluðu um sprengjurnar og gaf í skyn að umfjöllunin væri að koma niður á kosningabaráttu Repúblikanaflokksins.

Þar að auki setti hann orðið sprengja í gæsalappir sem er án efa tilvísun í samsæriskenningar Trump-liða um að Demókratar hafi sviðsett sprengjusendingarnar til að reyna að grafa undan Repúblikanaflokknum í komandi kosningum.

Starfsmenn AP fréttaveitunnar hafa flett í gegnum dómsskjöl og þar sem nöfn sakborninga eru birt í dómum þar í landi komust þeir að því að Sayoc á langan sakaferil að baki. Hann hefur meðal annars verið dæmdur fyrir að stela bíl, þjófnað og fyrir sprengjuhótun. Þar að auki hefur hann verið dæmdur fyrir fjársvik og fyrir að meðhöndla sönnunargögn.

Samkvæmt heimildum Washington Post býr Sayoc nærri þeim stað þar sem hann á að hafa sent sprengjurnar. Árið 2012 lýsti hann sig gjaldþrota og flutti til móður sinnar í Flórída. Ættingjar hans hafa ekki svarað símtölum fjölmiðla í dag.

Ekki liggur fyrir hvort hann sé talinn hafa verið einn að verki eða hvort hann eigi samstarfsmenn.

Daily Beast segir Sayoc hafa verið virkan á Twitter og Facebook og þar hafi hann reglulega birt samsæriskenningar um marga þeirra sem hann er sakaður um að hafa sent sprengjur. Þar má einnig finna hótanir í garð þeirra og til dæmis skrifaði hann tíst um George Soros og sagði: „Þú munt hverfa“. Fyrsta sprengjan sem fannst var send til Soros.

Hann hafði sömuleiðis skrifað um skotárásina í Stoneman Douglas skólanum í Parkland í Flórída. Sayoc sagði að árásin hefði í raun verið falskur fáni, eins og það er kallað, og aðgerðin hefði verið skipulögð af Soros og framsæknum bandamönnum hans. Daily Beast segir sömuleiðis að Sayoc hafi verið mikill stuðningsmaður Trump, miðað við Facebook síðu hans. 

Sayoc birti sömuleiðis margar neikvæðar færslur um innflytjendur og múslima. Þó hrósaði hanni vígamönnum Íslamska ríkisins fyrir að taka samkynhneigða menn af lífi á yfirráðasvæði þeirra.

Þá birti Sayoc myndband í sumar, sem virðist hafa verið tekið á kosningafundi forsetans.


Tengdar fréttir

Ýmislegt bendir til þess að sprengjurnar komi frá Flórída

Lögregla í Bandaríkjunum beinir nú sjónum sínum að suðurhluta-Flórídaríkis í rannsókn þess á sprengjum sem hafa verið sendar nokkrum þekktum demókrötum og gagnrýnendum Donalds Trump forseta undanfarna daga.

Leita logandi ljósi að sökudólgi

FBI stýrir rannsókn á sprengjusendingum til áhrifamanna innan bandaríska vinstrisins. Ekki víst að sprengjunum hafi verið ætlað að springa. Forsetinn kennir fjölmiðlum um hatursfulla orðræðu en eitt fórnarlamba skýtur til baka á forsetann og segir æsimennsku hans og hótanir til háborinnar skammar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×