„Við höfum verið að fara yfir þetta mál á undanförum dögum. Vorum í sambandi við bæði félög. Það eru allir sammála um að þetta mál hefur verið erfitt og þungt í vöfum. Við lærum af þessari reynslu og reynum að ljúka þessu með sátt. Við þurfum að taka til okkar það sem að okkur snýr í þessu máli,“ segir Guðni Bergsson, formaður KSÍ, en það voru spilaðar fimm umferðir í 2. deildinni frá því málið kom upp og þar til úrskurður Áfrýjunarnefndar KSÍ lá fyrir.
Ekkert mál að biðjast afsökunar
Eins og áður segir vildi Huginn ekki draga málið langt fram á vetur með frekari áfrýjunum en sagði í lokayfirlýsingu sinni að það vildi fá afsökunarbeiðni frá KSÍ.„Það er ekkert mál af okkar hálfu að biðjast afsökunar á því sem að okkur snýr og læra af mistökum. Við erum búin að biðjast afsökunar munnlega oftar en einu sinni. Það er sjálfsagt. Ég mun svo örugglega fara í heimsókn og ræða betur við menn,“ segir Guðni en forráðamenn Hugins báru Birki Sveinsson, mótastjóra KSÍ, þungum sökum og vildu að hann yrði látinn fara.
„Það hafa þung orð fallið í þessu máli og meðal annars í garð okkar starfsfólks. Það gerðust mistök eins og gerast hjá öllum. Við reynum að læra af því og kíkja á málsmeðferðarreglur okkar dómstóla. Við teljum málið samt ekki vera þess eðlis að það sé einhver þörf sé á því að víkja manni úr starfi.“