Erlent

Þvinguðu bandarískt herskip af leið í Suður-Kínahafi

Samúel Karl Ólason skrifar
US Decatur.
US Decatur. AP/Kyrrahafsfloti Bandaríkjanna
Sjóher Bandaríkjanna segir að herskip þeirra hafi verið þvingað af leið af kínversku herskipi. Bandaríkjamenn segja Kínverja hafa sett sjóliða í hættu með „ófagmannlegu“ framferði. Atvikið átti sér stað við Spratly-eyjar í Suður-Kínahafi á sunnudaginn.

Kínverjar hafa gert ólöglegt tilkall til nánast alls Suður-Kínahafs og segja yfirráðasvæði Kína ná nánast upp að ströndum annarra ríkja á svæðinu. Alþjóðagerðardómurinn í Haag hefur úrskurðað tilkall Kína til hafsins ólöglegt en Kínverjar hafa byggt upp heilu eyjurnar á svæðinu og komið þar fyrir herbúnaði, flugvöllum, flotastöðum og vopnum.

Bandaríska tundurspillinum USS Decatur var siglt að Spratley eyjum á sunnudaginn og var markmið ferðarinnar að ítreka að um alþjóðlegt hafsvæði væri að ræða samkvæmt lögum.

Þá mun kínverska herskipinu Luoyang hafa verið siglt í átt að USS Decatur.

Talsmaður Kyrrahafsflota Bandaríkjanna segir að Kínverjarnir hafi skipað áhöfn tundurspillisins að yfirgefa svæðið og Luoyang hafi verið siglt sífellt nær Decatur. Að endingu hafi fjarlægðin á milli skipanna verið um 40 metrar og þá hafi áhöfn Decatur neyðst til þess að breyta stefnu skipsins.

Samkvæmt AP fréttaveitunni hefur Utanríkisráðuneyti Kína sent frá sér tilkynningu þar sem Bandaríkin eru hvött til að láta af „ögrandi“ aðgerðum sem þessum. Kínverjar segjast andvígir því að bandarískum herskipum sé siglt á svæðinu.

Samband Bandaríkjanna og Kína hefur beðið hnekki að undanförnu. Ríkin eiga í viðskiptastríði og nú nýverið beittu Bandaríkin viðskiptaþvingunum gegn Kína. Það var gert vegna vopnakaupa Kínverjar af Rússum þar sem þau kaup brutu gegn þvingunum sem Bandaríkin höfðu beitt Rússa vegna afskipta þeirra af forsetakosningunum í Bandaríkjunum 2016.

Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hætti nýverið við heimsókn til Kína í þessum mánuði.


Tengdar fréttir

Snúa sér að Kína og Rússlandi

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna opinberaði í dag nýja varnarstefnu ríkisins, sem kallast National Defense Strategy, og beinist hún að mestu að því að sporna gegn áhrifum Kína og Rússlands.

Kínverjar gefi ekki þumlung af eyjunum

Forseti Kína segir að þjóð sín sé staðráðin í að tryggja frið í heiminum - þó svo að hún muni ekki gefa eftir tommu af landsvæði sínu til að ná því markmiði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×