Erlent

Skelfing greip um sig þegar flóðbylgjan skall á

Birgir Olgeirsson skrifar
Björgunarmenn að störfum í Palu.
Björgunarmenn að störfum í Palu. Vísir/EPA
Tæplega fjögur hundruð manns fórust þegar flóðbylgja fór yfir borgina Palu í gær. Flóðbylgjan fór af stað vegna jarðskjálfta sem mældist 7,5 að stærð en öldurnar náðu þriggja metra hæð þegar þær fóru yfir borgina á Sulawesi-eyju. 

Myndbönd á samfélagsmiðlum sýna hryllinginn sem átti sér stað en þar sjást íbúar flýja skelfingu lostnir undan öldunni.

Öflugir eftirskjálftar hafa riðið yfir en þúsundir heimila eru eyðilögð ásamt sjúkrahúsum, hótelum og verslunarmiðstöðvum.

Björgunaraðgerðir standa yfir en rafmagnsleysi gerir björgunarfólk erfitt fyrir. Aðalleiðin til Palu er lokuð að hluta vegna aurskriðu og þá eru nokkrar brýr ónýtar eftir skjálftann og flóðbylgjuna.

Yfirvöld í Indónesíu hafa gefið út að 384 fórust í þessari flóðbylgju en talið er að sú tala muni hækka. Að minnsta kosti 540 eru slasaðir.

„Það eru fjöldi líka á strandlengjunni vegna flóðbylgjunnar, en hversu margir fórust er óvitað,“ hefur fréttastofa breska ríkisútvarpsins BBC eftir embættismanni.

Hann bætti við að íbúarnir hefðu haft lítinn fyrirvara og voru margir á ströndinni þegar hamfararnir áttu sér stað. Hundruð voru að undirbúa hátíð á ströndinni sem átti að hefjast í gærkvöldi. Hann sagði suma hafa bjargað sér með því að klifra upp í sex metra há tré. 

Hér fyrir neðan má sjá myndband af því frá BBC þegar flóðbylgjan skall á borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×