Erlent

Mangkhut olli usla í Filippseyjum og er nú á leið til Kína

Samúel Karl Ólason skrifar
Vitað er um tvær konur sem dóu í aurskriðu nærri borginni Bangio en talið er að tala látinna muni hækka og jafnvel verulega.
Vitað er um tvær konur sem dóu í aurskriðu nærri borginni Bangio en talið er að tala látinna muni hækka og jafnvel verulega. Vísir/AP
Minnst tveir eru dánir eftir að fellibylurinn Mangkhut fór yfir Filippseyjar. Þar olli óveðrið miklum skaða og eru til dæmis nánast allar byggingar í borginni Tuguegarao skemmdar á einhvern hátt, samkvæmt embættismönnum þar. Minnst fjórar milljónir manna bjuggu á svæðinu sem fellibylurinn fór yfir en honum fylgdi um 50 m/s vindur og mikil flóð.

Vitað er um tvær konur sem dóu í aurskriðu nærri borginni Bangio en talið er að tala látinna muni hækka og jafnvel verulega. Árið 2013 skall fellibylurinn Haiyan á Filippseyjum og þá dóu rúmlega sjö þúsund manns. Að meðaltali fara tuttugu fellibylir og óveður yfir Filippseyjar á ári hverju og valda þar miklum skaða.

Afskekt samfélög fátækra sem reiða sig á fiskveiðar eru hvað viðkvæmust fyrir óveðrunum.

Mangkhut er nú á leið til Kína og Hong Kong. Fellibylurinn missti þó einhvern styrk yfir Filippseyjum. Í Hong Kong búa íbúar og yfirvöld sig undir átökin og þá sérstaklega fyrir sjávarflóð sem búist er við að verði mikil, samkvæmt AFP fréttaveitunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×