Erlent

Mangkhut herjar á Kína og minnst 49 látnir á Filippseyjum

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar við björgunarstörf í Hong Kong.
Lögregluþjónar við björgunarstörf í Hong Kong. Vísir/EPA
Fellibylurinn Mangkhut herjar nú á fjölbýlasta hérað Kína, eftir að hafa ollið skemmdum í Hong Kong. Þá hefur tala látinna á Filippseyjum hækkað í 49 og mun hún líklegast hækka frekar. Mangkhut er talinn vera sterkasta óveður ársins.

Fellibylurinn náði landi í Kína í morgun nærri borginni Jiangmen í Guangdong-héraði. Minnst 2,45 milljónir íbúa hafa verið fluttir af heimilum sínum og yfirvöld héraðsins hafa lýst yfir hæsta viðbúnaðarstigi. Það sama hefur verið gert í Hong Kong. Þar hækkaði sjávarborðið um nærri því þrjá og hálfan metra og enduðu lifandi fiskar á götum borgarinnar.



AFP fréttaveitan segir fjölmarga hafa slasast í Hong Kong en ekki sé vitað til þess að einhver hafi dáið.

Í Filippseyjum dóu flestir vegna aurskriða og meðal hinna látnu er eitt barn og eitt ungabarn. Björgunaraðilar hafa þó ekki komist til einhverra afskekktra samfélaga og þykir því líklegt að tala látinna muni hækka úr 49.

þá fór fellibylurinn yfir landbúnaðarsvæði og eru uppskerur víða ónýtar. Einn íbúi sem AFP ræddi við segist hafa misst allt sitt.

„Við vorum þegar fátæk og svo lentum við í þessu. Við höfum misst alla von,“ sagði Mary Anne baril. Öll uppskera fjölskyldu hennar er ónýt og hún segir lífsviðurværi þeirra þar með farið.


Tengdar fréttir

Minnst 25 dánir og ótti um uppskerubrest

Yfirvöld Filippseyja vinna nú hörðum höndum að því að taka saman dauðsföll og skemmdir í kjölfar fellibylsins Mangkhut sem fór þar yfir fyrr um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×