Íslenski boltinn

Léttur Óli Jóh skaut á Rúnar eftir leik: „Þeir eru svo stressaðir þarna í Stjörnunni“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
S2 Sport

Íslandsmeistarar Vals gerðu 1-1 jafntefli við Stjörnuna í einum af stórleikjum sumarsins í Pepsi deildinni í gær. Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, var léttur eftir leikinn.

Hörður Magnússon og sérfræðingar úr Pepsimörkunum voru á Samsung vellinum í gær og fengu Ólaf til sín eftir leikinn. Hann sagðist ekki hafa verið nógu ánægður með spilamennsku sinna manna í leiknum.

„Sérstaklega í fyrri hálfleik þá fannst mér eins og við værum bara að bíða. Eftir hverju, ég veit það ekki. Eftir því að leikurinn væri búinn kannski,“ sagði Ólafur. Kristinn Freyr Sigurðsson kom Val yfir í fyrri hálfleik en Eyjólfur Héðinsson jafnaði metinn áður en hálfleikurinn var úti.

„Seinni part seinni hálfleiksins þá fannst mér við vera yfir í leiknum, en þetta eru tvö frábær lið svo það þarf lítið til þess að tapa leiknum.“

Úrslit leiksins voru betri fyrir Val en Stjörnuna, Valur er með þriggja stiga forskot á Stjörnuna á toppi deildarinnar þegar fjórar umferðir eru eftir.

Það var smá hiti í mönnum á hliðarlínunni en Ólafi fannst dómgæslan hafa verið til fyrirmyndar í leiknum.

„Þeir eru svo stressaðir þarna í Stjörnunni, þeir eru það nú alltaf. Rúnar er náttúrulega kolvitlaus,“ skaut Ólafur á kollega sinn Rúnar Pál Sigmundsson. „Fékk hann ekki rautt spjald hérna í fyrra? Við vorum rólegir við Bjössi [Sigurbjörn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari Vals].“

Á meðal sérfræðinganna í gær var Gunnar Jarl Jónsson, fyrrum dómari. Hörður spurði Ólaf hvort hann saknaði Gunnars úr dómgæslunni og var hann alveg á því.

„Ég get alveg sagt það hreint út að ég vil frekar hafa hann í dómgæslu en þessu sem hann er í núna,“ svaraði Ólafur við mikla kátínu sérfræðinganna.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.