Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Breiðablik - Grindavík 1-1 | Blikarnir búnir að missa af lestinni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir á Kópavogsvelli skrifar
Fréttablaðið/Eyþór
Breiðablik og Grindavík skildu jöfn á Kópavogsvelli í dag. Leikurinn var nokkuð bragðdaufur framan af en það hitnaði í kolunum undir lokin og hefðu bæði lið getað stolið sigrinum.

Fyrir leik var að litlu að keppa fyrir bæði lið. Breiðablik svo gott sem úr leik í toppbaráttunni og Grindavík um miðja deild með litla möguleika á Evrópusæti. Leikurinn var eftir því frekar bragðdaufur í byrjun.

Grænir heimamenn voru þó meira með boltann og réðu för í leiknum. Þeir uppskáru mark á 33. mínútu þegar Kolbeinn Þórðarson sendi boltann á kollinn á Thomas Mikkelsen. Daninn skallaði í slánna og inn og voru Blikar nokkuð verðskuldað yfir.

Eftir markið lifnaði aðeins yfir heimamönnum sem áttu færi undir lok hálfleiksins en náðu ekki að nýta þau, staðan 1-0 í hálfleik. Óli Stefán Flóventsson gerði tvöfalda breytingu í hálfleik og Grindvíkingar gerðu meira vart við sig.

Á 75. mínútu jafnaði Grindavík. Damir Muminovic átti stórfurðulega sendingu út úr sínum eigin vítateig á Viktor Örn Margeirsson. Viktor var ekki tilbúinn til þess að fá boltann, hann hrökk inn í teiginn og þar ætlaði Viktor að tækla boltann frá en í staðinn rann boltinn framhjá Gunnleifi Gunnleifssyni í markinu og í átt að Will Daniels sem potaði honum yfir línuna.

Bæði lið áttu færi til þess að ná inn sigurmarkinu undir lokin en það kom ekki, 1-1 lokatölur á Kópavogsvelli.

Af hverju varð jafntefli?

Hvorugt liðið náði að skora sigurmarkið. Blikar voru heilt yfir sterkara liðið þó Grindavík hafi átt góða spretti í seinni hálfleik. Þeir naga sig líklega í handarbökin yfir að hafa ekki nýtt nokkur af þeim fínu færum sem þeir náðu að búa sér til í leiknum.

Að sama skapi sýndi Grindavík fínan karakter í því að koma til baka og sækja stig úr leiknum.

Hverjir stóðu upp úr?

Kolbeinn Þórðarson átti mjög góðan leik, var hættulegur fram á við og átti stoðsendinguna í marki Blika. Willum Þór Willumsson var mættur aftur í lið Blika eftir meiðsli og hann átti fínan leik, dofnaði aðeins yfir honum í seinni hálfleik.

Hjá Grindavík átti Sito góða innkomu af bekknum og Will Daniels var sprækur í framlínunni.

Hvað gekk illa?

Færanýting Breiðabliks er ekki sú besta. Þeir komust oft í fín færi þar sem skotin voru langt frá því að hitta á rammann. Ef Blikar ætla að eiga einhvern möguleika á að keppa um efsta sætið þarf að nýta færin.

Hvað gerist næst?

Nú tekur við landsleikjahlé. Eftir tvær vikur fer fram bikarúrslitaleikur Blika og Stjörnunnar, líklega eina von Breiðabliks á titli í ár. Grindavík mætir Fjölni í 20. umferðinni sunnudaginn 16. september.

Óli Stefán Flóventsson þjálfari Grindavíkur.Vísir/Andri Marínó
Óli Stefán: Sanngjarnt að setja jöfnunarmarkið

„Ég er sáttur með seinni hálfleikinn hjá okkur. Við sýndum alvöru vilja í að fara og jafna þetta og fara að vinna. Það er skref fram á við frá því sem hefur verið,“ sagði Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur, eftir leikinn.

„En ég er ósáttur að sama skapi með fyrri hálfleikinn. Við vorum litlir í okkur. Ég er rosalega ánægður með viðbrögðin, að þeir komi og sýni á sér brjóstkassann. Þetta var rosa prófsteinn fyrir okkur í dag, að geta farið og pressað þessi lið. Að því leitinu til er ég rosalega ánægður.“

Grindvíkingar voru sprækari í seinni hálfleik en þeir mega þó teljast heppnir með þetta mark sem þeir skoruðu.

„Skapar maður sér ekki sína heppni?“

„Við unnum boltann í ofboðslega öflugri pressu. Við höfðum mikið fyrir því að komast í þessa stöðu og mér fannst sanngjarnt að setja jöfnunarmark á þetta. Við skulum ekki gleyma því að við erum að etja kappi við eitt besta fótboltalið á Íslandi. Það gerir þetta stig fyrir okkur enn þá stærra og verðmætara.“

Óli vildi ekki vera sammála því að Grindavíkurliðið hefði að litlu að keppa eins og staðan er í deildinni. „Við höfum að öllu að keppa. Til dæmis að gera betur en við höfum gert áður, að bæta okkur sem lið og stíga skrefið fram.“

„Í seinni hálfeik, það var fyrsta stigið að því að verða eitthvað meira en miðlungs Pepsi deildar lið. Við ætlum okkur að reyna að klára þessa leiki sem eftir eru með þetta hugarfar,“ sagði Óli Stefán Flóventsson.

Ágúst Gylfason tók við Breiðabliki fyrir tímabiliðvísir/bára
Gústi Gylfa: Frammistaðan setur spurningamerki við hvernig við ætlum að klára þetta mót

„Nei, ég er mjög ósáttur,“ sagði Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks, hreint út þegar hann var spurður að því eftir leik hvort hann væri sáttur með stigið. „Við erum búnir að tapa síðustu tveimur leikjum og ætluðum að hysja upp um okkur buxurnar í dag, en þetta var lélegt.“ 

„Við þurfum að gíra okkur í gang, það er klárt.“

Valsmenn misstu af stigum í dag og var það ljóst í hálfeik. Fengu leikmenn Breiðabliks að vita af því áður en þeir fóru út í seinni hálfleikinn? „Nei, en við vitum að við þurfum að klára okkar leiki.“

„Við munum klára okkar leiki, það er alveg ljóst, en með svona frammistöðu þá setur maður spurningarmerki við það hvernig við munum klára þetta mót.“

Hvað vantaði helst upp á í leik Blika? 

„Áræðni og gæði, kannski smá pirringur eða eitthvað. Grindvíkingarnir stóðu sig vel líka, héldu boltanum vel eins og þeir eru góðir í. En við náðum ekki að nýta færi og svo vorum við bara heppnir að fá það ekki í andlitið.“

Markið sem Blikarnir fengu á sig var heldur skrautlegt og klaufalegt að fá á sig. 

„Ég á eftir að sjá það betur bara, en við gefum þetta mark, það er nokkuð ljóst.“

„Það kemur smá kærkomið frí núna og við þurfum aðeins að stilla okkur af fyrir loka baráttuna.“

Er Breiðablik búið að gefast upp í toppbaráttunni? „Já, ég sagði það í síðasta leik og í dag náum við ekki að minnka muninn. Staðan er sú sama og við eigum erfitt með að ná þessum liðum, þeir þurfa að gera mikið upp á bak til þess að missa af einhverjum stigum,“ sagði Ágúst Gylfason.

Gunnar Þorsteinsson, fyrirliði Grindavíkur.vísir/daníel
Gunnar: Seinni hálfleikur eins og borðtennisleikur

„Ég held ég hafi sjaldan verið jafn þreyttur eftir leik í sumar og þennan,“ sagði Gunnar Þorsteinsson, fyrirliði Grindavíkur, inntur eftir fyrstu viðbrögðum eftir leikinn. „Ég veit ekki hvort það var tempóið eða mikið af tæknifeilum sem gerðu það að verkum að seinni hálfleikurinn var bara eins og borðtennisleikur.“ 

Óli Stefán var ekki sáttur með frammistöðu sinna manna í fyrri hálfeik, var eldræða frá honum í hálfeik?

„Já, það var svona ekta sjóara ræða þegar menn eru ekki búnir að vera að fiska í töluverðan tíma. Það var aðeins blásið á mönnum hárið en það er bara fínt, strákar þurfa stundum á því að halda.“

Grindvíkingar komu betur inn í leikinn í seinni hálfleik og ættu að geta gengið nokkuð sáttir af velli.

„Ég er ósáttur með að við höfum ekki klárað þetta. Mér fannst Blikarnir bogna mjög, ég veit ekki hvort það hafi dregið svona úr þeim að það vantaði bæði Oliver og Andra í seinni hálfeik en jú jú, vissulega keyrðu þeir yfir okkur í fyrri hálfleik. Héldu boltanum mjög vel og hreyfðu hann hratt á milli kanta. Í seinni hálfeik fannst mér þeir bogna alveg rosalega, sérstaklega eftir að við jöfnuðum.“

„Þetta er pínu sagan í sumar að það vantar að reka smiðshöggið á þetta. Ég veit ekki hvort það er að við séum ekki með nógu mikil gæði eða hvort að það sé komið inn í hausinn á mönnum að þeir geti ekki klárað færin því við fengum klárlega sénsana til þess.“

„Það er bara gamla sagan að ef þú heldur ekki markinu hreinu þá er miklu erfiðara að vinna leikinn,“ sagði Gunnar Þorsteinsson.

Willum: Vorum bara að halda og bíða

Willum Þór Willumsson kom aftur inn í lið Breiðabliks í dag eftir meiðsli og átti prýðisgóðan leik. Hann var hins vegar ekkert sérlega sáttur í leikslok.

„Gaman að koma til baka en svekkjandi úrslit. Við ætluðum að vinna þennan leik og koma okkur aftur í baráttuna en við vorum ekki alveg nógu góðir í dag, það var bara svoleiðis.“

„Mér fannst í seinni hálfeik þá duttum við niður og vorum allt of rólegir. Við hefðum átt að keyra meira á þá í stöðunni 1-0 en við vorum bara að halda og bíða.“

Blikar mæta Stjörnunni í bikarúrslitunum eftir tvær vikur og ætla sér að sækja sigur þar.

„Við höldum bara áfram. Við komum af krafti inn í bikarúrslitin og ætlum að taka bikarinn,“ sagði Willum Þór Willumsson.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.