Erlent

Vill frekari þvinganir gegn Rússlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands.
Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands. Vísir/EPA
Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, ætlar að kalla eftir því að ríki Evrópu beiti frekari viðskiptaþvingunum og refsiaðgerðum gegn Rússlandi og þá vegna „illskeyttra“ aðgerða þeirra um heiminn allan. Hunt vill að Evrópa beiti svipuðum aðgerðum og yfirvöld Bandaríkjanna hafa gert og ætla að gera vegna árásarinnar á Skripal-feðginin.

Samkvæmt BBC verður þetta áhersluatriði Hunt á ferð hans um Bandaríkin í þessari viku.



Í ræðu sem Hunt mun halda í Washington ætlar hann að segja að gera verði yfirvöldum Rússlands grein fyrir því að þeir munu gjalda fyrir endurtekin brot þeirra á alþjóðareglum. Samkvæmt BBC mun Hunt vitna í aðgerðir Rússa til að hafa áhrif á kosningar vestrænna ríkja og segja þær vera meðal þeirra ástæðna að fólk leggi minni trúnað á stjórnmálin og hefðbundin lýðræðiskerfi.

Hunt mun þó einnig segja að Evrópuríki verði að koma böndum á ýmis efnahags- og félagsvandamál sem hafi leitt til deilna og þá meðal annars samdrátt í lífsgæðum og málefnum flóttamanna.

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna tilkynnti fyrr í mánuðinum að frekari refsiaðgerðum yrði beitt gegn Rússum og þær yrðu hertar enn frekar eftir þrjá mánuði. Þá myndi nærri því öll viðskipti ríkjanna stöðvast og mögulega yrðu flug á milli Bandaríkjanna og Rússlands bönnuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×