Erlent

Ætla ekki að láta undan þrýstingi Kínverja

Samúel Karl Ólason skrifar
Tsai Ing-wen, forseti Taívan.
Tsai Ing-wen, forseti Taívan. Vísir/EPA
Yfirvöld Taívan hétu því í dag að berjast gegn offorsi Kínverja, sem hafa unnið hörðum höndum að því að fá bandamenn Taívan á sitt band. El Salvador hætti nýlega samskiptum við Taívan og varð fimmta ríkið til að gera það á tiltölulega skömmum tíma. Taívan á nú í formlegum samskiptum við einungis sautján ríki í heiminum.

Forseti Taívan, Tsai Ing-wen, sagði í dag að ríkið myndi ekki láta undan þrýstingi nágranna sinna,sem reglulega fljúga sprengjuflugvélum í kringum Taívan. Þá sagði hún ákvörðun El Salvador til marks um viðleitni Kína til að einangra eyríkið. Búrkína Fasó, Dóminíska lýðveldið, Saó Tóme og Prinsípe og Panama höfðu áður slitið samskiptum sínum við Taívan.

„Við munum snúa okkur að ríkjum sem virða sömu gildi og við, til þess að berjast í sameiningu gegn stjórnlausu háttalagi Kína í alþjóðasamskiptum,“ sagði Tsai.Utanríkisráðherra Taívan sagði ríkisstjórn El Salvador hafa beðið ríkið um fjárhagsaðstoð vegna byggingar nýrrar hafnar en Taívan hefði ekki getað orðið við þeirri beiðni.

Áratugagamlar deilur

Kínverjar hafa gert tilkall til Taívans allt frá árinu 1949 þegar leiðtogar lýðveldissinna í Kína flúðu þangað undan kommúnistum og stofnuðu þar ríki, sem þeir kölluðu, og kalla raunar enn, Lýðveldið Kína. Afar grunnt hefur verið á því góða á milli ríkjanna allar götur síðan.

Núverandi ríkisstjórn Taívan er hliðholl því að lýsa formlega yfir sjálfstæði.

Bandaríkin hafa lengi átt í óformlegum samskiptum við Taívan og varnarsamstarfi en viðurkenna hins vegar ekki Taívan opinberlega. Undir stjórn Donald Trump hafa samskipti Taívan og Bandaríkjanna hins vegar orðið formlegri. Bandaríkin og Taívan hafa gert tvo sáttmála sín á milli og hefur það valdið miklum áhyggjum í Peking.

Sendiherra Bandaríkjanna í El Salvador, Jean Manes, skrifaði á Twitter í dag að Bandaríkin myndu taka ákvörðun ríkisstjórnar El Salvador til skoðunar. Ákvörðunin hefði verið slæm og hún myndi hafa áhrif á samband Bandaríkjanna og ríkisstjórnar El Salvador.


Tengdar fréttir

Sektuð fyrir að segja herðartré koma frá Taívan

Stjórnvöld í Kína hafa sektað Japönsku fataverslunarkeðjuna Muji um rúmar þrjár milljónir króna fyrir að tilgreina Taívan sem upprunaland herðartrjáa sem það flutti inn til landsins.

Stuttermabolur ærði kínverska netverja

Bandaríski fatarisinn Gap hefur beðist afsökunar á því að bolur, sem fyrirtækið framleiddi, hafi ekki sýnt „réttar útlínur“ Kína.

Enn fækkar bandamönnum Taívana gegn Kínastjórn

Dómíníkanska lýðveldið hefur rift öllum opinberum tengslum við ríkisstjórnina í Taívan og þess í stað formlega viðurkennt stjórnvöld í Pekíng sem hin einu réttmætu kínversku yfirvöld. Það þýðir að aðeins 19 ríki í heiminum viðurkenna nú taívönsku stjórnina, aðallega smáríki sem eru háð efnahagsaðstoð sem þau fá í skiptum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.