Erlent

Enn fækkar bandamönnum Taívana gegn Kínastjórn

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Miðborg Taípei, höfuðborgar Taívan
Miðborg Taípei, höfuðborgar Taívan peellden/Wikimedia Commons
Dómíníkanska lýðveldið hefur rift öllum opinberum tengslum við ríkisstjórnina í Taívan og þess í stað formlega viðurkennt stjórnvöld í Pekíng sem hin einu réttmætu kínversku yfirvöld. Það þýðir að aðeins 19 ríki í heiminum viðurkenna nú taívönsku stjórnina, aðallega smáríki sem eru háð efnahagsaðstoð sem þau fá í skiptum.

Stjórnin í Taívan er það eina sem lifir eftir af herforingjastjórn Chiang Kai-shek sem beið lægri hlut fyrir kommúnistum í kínverska borgarastríðinu árið 1949. Hann flúði með síðustu hversveitum sínum og stuðningsmönnum til Taívans og kom sér þar fyrir en viðurkenndi aldrei ósigur.

Mörg ríki, þar á meðal Bandaríkin, viðurkenndu fyrst um sinn stjórnina í Taívan sem réttmæta stjórn alls Kína en það var aðeisn í orði þar sem ítök Taívana á meginlandinu voru engin. Bandaríkjastjórn tók síðan formlega upp milliríkjasamskipti við stjórnina í Pekíng á áttunda áratug síðustu aldar og lokaði um leið sendiskrifstofum í Taívan, flest ríki heims hafa gert hið sama.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×